138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga snýst ferðaþjónustan alls ekki eingöngu um útlendinga. Það er ágætt að það sé verið að markaðssetja Ísland með þessum hætti og ég fagna því og tek undir með hv. þingmanni að það er að ýmsu leyti hagstætt fyrir erlenda ferðamenn að koma hingað. En við erum líka með Íslendinga sem vilja ferðast innan lands og þetta er ekkert annað skattur á ferðaþjónustuna. Það er sama þótt hv. þingmaður vilji segja að þetta sé ekki sértækur skattur á ferðaþjónustuna, þetta er kannski almenn aðgerð, en þetta er jafnvitlaus almenn aðgerð fyrir því. Þetta er ekki sértækur skattur, en þetta eru auknar álögur.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson fullyrti að þetta væru 600 milljónir í auknar álögur á ferðaþjónustuna. Mér er alveg sama þótt það komi ekki í sértækum skatti, það er jafnslæmt fyrir því.

Það er nefnilega mjög gott dæmi sem hv. þingmaður nefndi af Bláa lóninu, sem er jú í mínu kjördæmi, en hv. þingmaður þekkir afar vel til, veit ég, sökum hans fyrri starfa þar, frábært fyrirtæki, stórkostlegt fyrirtæki, en það er dýrt að fara þangað fyrir okkur Íslendinga. Jafnvel þótt við lesum um það í New York Times að það sé ódýrt fyrir erlenda ferðamenn er það dýrt fyrir Íslendinga. Ef það væri nú hægt að taka smávegis af opinberu álögunum veit ég að það mundi auka umferð íslenskra ferðamanna til dæmis.

Mér finnst það ódýrt sjónarmið að segja að þetta séu ekki sértækir skattar og að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geti valið um þessa gistinátta- og komugjaldaskatta. Það breytir því ekki, eins og í dæminu með bílaleiguna, sem ég las upp hér áðan, (Forseti hringir.) að þetta hefur gífurlegan kostnaðarauka í för með sér. Það er óumdeilt.