138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að mér hafi misheyrst. Ég ætla að vona að mér hafi misheyrst þegar hv. þm. Magnús Orri Schram vogar sér að koma hér og halda því fram að ég standi í einhverri baráttu fyrir einhvern einn tiltekinn hóp.

Í fyrsta lagi, virðulegur forseti, er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á móti umhverfis- og auðlindasköttum, en það er einfaldlega þannig að þetta frumvarp hefur ekkert með umhverfið eða auðlindir að gera. Þetta eru aðferðir ríkisstjórnarinnar til að fara ofan í vasann á almenningi og fyrirtækjum.

Í öðru lagi, herra forseti, veit ég ekki betur en það sem hv. þingmaður var að væna mig um að vera að gera, berjast á móti auðlindaskatti í sjávarútvegi — ég veit ekki nema hv. þingmaður ætti aðeins að fara að dusta rykið af gömlum blöðum, í Alþingistíðindum . Ég veit ekki betur en að sá skattur sé fyrir löngu síðan kominn á. Það er auðlindagjald í sjávarútvegi, hv. þingmaður og hæstv. forseti. (VigH: Síðan 2002.) Síðan 2002 hefur verið lagður sérstakur auðlindaskattur á þessa einu atvinnugrein, eina atvinnugreinin sem hefur verið að borga auðlindagjald. Þetta var gert eftir mikið samráð, enda umdeilt mál, miklar deilur í samfélaginu, þar sem það var sett á til að reyna að slá á það og reyna að skapa sátt.

Þessu frumvarpi er hent hér fram, undir því yfirskyni að það eigi að snúast um umhverfi eða auðlindir, algjörlega umræðulaust, algjörlega án samráðs og á að leggjast á fleiri atvinnugreinar. Fínt. Tölum um auðlindagjald í orkugeiranum. Tölum um auðlindagjald varðandi allar auðlindir. En gerum það eins og gert var þegar auðlindagjaldið (Forseti hringir.) var sett á 2002, og hv. þm. Magnús Orri Schram ætti að kynna sér það.