138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta. Það hefur verið mjög góð og málefnaleg og fjörug umræða í dag um þetta mál, enda ekki skrýtið að alþingismenn þjóðarinnar hafi áhuga á því að ræða þetta mál vegna þess að það brýtur að ákveðnu leyti blað í hálfgerðu lýðskrumi. Talað er um að verið sé að leggja á umhverfis- og auðlindaskatta en hér er einfaldlega á ferðinni gamaldags skattlagning á heimilin, atvinnulífið og landsbyggðina. Þannig er þetta og ég ætla svo sem ekki að eyða miklu af tíma mínum í að fara yfir þetta þar sem aðrir hv. þingmenn hafa gert það mjög vel og það er gert sérstaklega vel í nefndaráliti 1. minni hluta, þ.e. frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Herra forseti. Í fyrsta lagi langar mig að tala aðeins um áhrifin sem þetta hefur á heimilin í landinu. Skattlagning á raforku og heitu vatni til heimilanna, endanlegra notanda, eins og segir í frumvarpinu, mun einfaldlega hækka framfærslukostnað heimilanna í landinu og hafa gríðarleg áhrif á það hversu miklar ráðstöfunartekjur þau hafa að lokum. Það er ljóst að þessi skattlagning mun koma þungt niður á heimilum landsins, sem nú þegar hafa þurft að þola gríðarlega tekjuskerðingu. Jafnframt má nefna í þessu sambandi að olíu- og bensíngjöld voru hækkuð fyrr á þessu ári og það liggur jafnframt fyrir að hækka skuli þau gjöld enn frekar nái frumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum fram að ganga, þar er um að ræða gríðarlegar hækkanir.

Herra forseti. Vissulega væri gott fyrir umhverfið ef hægt væri að draga úr einkabílanotkun og því hefur verið oft verið flaggað á hátíðarstundum í lærðum ræðum, sérstaklega frá þeim sem telja sig vera græna. En við búum einfaldlega á þannig landi, herra forseti, að við verðum að hafa bíla til þess að ferðast um. Nú er ég búsett til dæmis á Suðurlandi og ég keyri hér á milli nánast á hverjum degi. Ég sé ekki að ríkisstjórnin ætli að leggja í það að útbúa einhvers konar almenningssamgöngur á þessari leið til dæmis, þannig að það er ekkert um neitt annað að gera fyrir venjulegt fólk í þessu landi en að eiga bíl og reka hann. Þannig er það einfaldlega. Þrátt fyrir að það sé mikil umræða um þetta úti í heimi verðum við alltaf að horfa á þær aðstæður sem við sjálf búum við. Aðstæður hér á Íslandi eru mjög sérstakar.

Herra forseti. Mig langar aðeins að fara yfir athugasemdir við frumvarpið sem komu frá Neytendasamtökunum. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Samtökin telja ljóst að aukin skattlagning af þessu tagi, að ekki sé minnst á skattlagningu á lífsnauðsynlegar vörur á við hita og rafmagn, muni bitna þungt á neytendum. Ekki einasta í formi hækkaðs verðs, heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði verðtryggðra lána. Ljóst er að frumvarpið, verði það að lögum, mun hafa nokkur áhrif á neysluvísitölu.

Jafnframt lýsa samtökin undrun sinni á því að hugmyndir um töku kolefnisgjalds skuli koma samtímis tillögum um hækkanir á bensíni og olíugjaldi, en ljóst er, verði þessar hugmyndir að veruleika, að bensínverð mun hækka umtalsvert um áramót, með tilheyrandi áhrifum á neysluvísitölu og þar með greiðslubyrði verðtryggðra lána.“

Þarna standa öll rökin svart á hvítu, svona er þetta. Þetta mun hafa umtalsverð áhrif á heimilin í landinu. Höfum við þingmenn ekki verið að nota tíma okkar á þessu þingi í það að reyna að koma heimilunum í landinu til aðstoðar? Var ekki verið að samþykkja lög frá Alþingi sem áttu að reyna að koma til móts við skuldsettu heimilin í landinu og samþykkja þar einhver úrræði? Hvernig heldur þingheimur að sú lagasetning sem hér er verið að tala um komi til með að leggjast í einstaklingana sem hafa þurft að nýta sér þau úrræði?

Herra forseti. Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera í þessari ríkisstjórn og það er algjörlega ljóst að það er engin sérstök forgangsröðun í gangi hjá ríkisstjórninni þegar kemur að skattlagningu og það er einfaldlega engin heildaryfirsýn í gangi.

Þá komum við enn og aftur að því sem hefur verið margrætt hér í þessum stól, að þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum var aðalmálið að það átti að vera svo mikið verkstjórnarvit í henni. Ég hef hins vegar hvergi séð þess stað. Það er einfaldlega eitthvað sem væri nú ágætt að fá sérstaka umræðu um hér á þinginu, hvernig hið mikla verkstjórnarvald hefur verið nýtt og hvernig það hefur birst landsmönnum á valdatíma ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Mig langar að víkja aðeins að því hvaða áhrif þessar breytingar hafa, ef lögin taka gildi, á atvinnulífið. Það er algjörlega ljóst miðað við þær umsagnir sem bárust í málinu að þetta leggst vægast sagt ekki vel í þá sem starfa og reka fyrirtæki og það er ekkert skrýtið.

Fram komu mjög miklar athugasemdir í þeim umsögnum sem hagsmunaaðilar gerðu við frumvarpið og má þar helst nefna að Samtök atvinnulífsins telja að þetta skattform sé óæskilegt og komi til með að koma niður á atvinnulífinu, sérstaklega í orkufrekum iðnaði, sjávarútvegi, flutningsstarfsemi og flugrekstri og ferðaþjónustu. Eru þetta ekki einmitt þær atvinnugreinar sem við hljótum að ætla okkur að efla til þess að við getum skapað fleiri störf og aflað meiri gjaldeyristekna? Hvernig fer þetta saman, herra forseti?

Talsmenn flugfélaganna hafa bent á hækkun eldsneytis, það komi til með að leiða til hækkunar á farmiðaverði. Í iðnaðarnefnd hefur komið fram sú skoðun þessara aðila að 1% hækkun farmiða leiði til 1% fækkunar erlendra ferðamanna. Það sé einfaldlega beint samband þarna á milli. Það hafa m.a. verið tekin dæmi af því hvernig tókst til í Hollandi þegar komugjöld voru hækkuð þar og þar sannaði það sig að þessi regla er í gildi — 1% hækkun farmiða leiðir til 1% fækkunar ferðamanna.

Herra forseti. Ég ætlaði að leyfa mér að vísa aðeins í umsögn Samtaka iðnaðarins um þetta mál, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er ætlunin að skattleggja vöru og aðföng sem eru afar mikilvæg í iðnrekstri. Í fjölda fyrirtækja vega innkaup á þessum vörum þungt í rekstrinum. Íslensk stjórnvöld hafa löngum litið svo á að einn af kostum þess að reka iðnaðarstarfsemi hérlendis séu góð kjör á raforku og vatni. Samtök iðnaðarins vara við því að leggja þungar álögur á þessar nauðsynjar.“

Nú er það svo, herra forseti, að við erum í mikilli efnahagslægð og það er hlutverk okkar að reyna að ná sjó og koma efnahagslífinu í betra horf. Við verðum að leggja það niður fyrir okkur og reyna að átta okkur á því hverjir okkar helstu styrkleikar eru, hvaða meginstoðir það eru sem við ætlum að byggja á til framtíðar. Það hefur því miður ekki lánast hjá þeirri ríkisstjórn sem hér starfar að horfa á þetta. Ég hef talsverðar og miklar áhyggjur af því hvernig þetta, ef frumvarpið verður að lögum, kemur til með að leika ferðaþjónustuna, vegna þess að þar eru miklar væntingar. Við höfum miklar væntingar til þess að sú grein komi til með að skila okkur auknum gjaldeyristekjum. Það er nú þegar að sjálfsögðu búið að selja og verðleggja slíka þjónustu sem í boði er hjá íslenskum ferðaþjónustuaðilum, þannig að það mun að sjálfsögðu ekki vera hægt að koma þessu öllu saman fyrir hjá þeim fyrirtækjum með því að hækka verð, vegna þess að það er einfaldlega búið að ganga frá samningum og nánast fullnýta skiptipláss til dæmis á Suðurlandi fyrir næsta sumar. Þannig að þetta er að sjálfsögðu eins og blaut tuska framan í andlitið á þeim aðilum sem hefur verið lofað því að þeir komi til með að skipa stórt hlutverk við endurreisnina hér á landi.

Herra forseti. Í þriðja lagi langar mig að tala aðeins um landsbyggðina og áhrifin af þessum hækkunum, verði þær að veruleika, á stöðu hennar. Skatturinn hækkar orkukostnað og sérstaklega flutningskostnað. Fyrirtæki á landsbyggðinni og heimili þar munu þurfa að taka á sig þennan kostnað. Það er ekkert annað í stöðunni. Það er ekkert annað í spilunum. Þessir umhverfis- og auðlindaskattar eru bara landsbyggðarskattur í dulargervi. Það er algjörlega ljóst að þessar hækkanir koma illa við landsbyggðina og geta haft í för með sér mikla mismunun. Það er alvarlegt. Það er að sjálfsögðu ekki sanngjarnt að landsbyggðin komi til með að bera þyngri byrðar vegna þessa efnahagshruns og vegna úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar en sanngjarnt megi teljast. Ég tel að hér sé einfaldlega gengið of langt.

Mig langar af þessu tilefni, herra forseti, að vísa aðeins í umsögn Bændasamtaka Íslands. Þau sögðu í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Þessir fyrirhuguðu skattar munu leggjast á rafmagn, bensín og olíur, sem eru stórir rekstrarliðir í landbúnaði og kæmu þar til viðbótar gríðarlegum aðfangahækkunum sem þegar hafa orðið. Þessir skattar mundu hækka flutningsgjöld og yrðu þannig sérstakur landsbyggðarskattur.“

Enn fremur segir í umsögninni:

„Því til viðbótar er hætta á að orkufyrirtækin munu stórhækka verð á raforku innan fárra missira vegna slæmrar skuldastöðu. Mikil hækkun á heitu vatni kæmi í kjölfarið a.m.k. hjá stóru hitaveitunum, sem kæmu fyrirsjáanlega hart niður á garðyrkjubændum og skipti verulegu máli fyrir alla bændur. Þarna væri um að ræða enn aukinn orkukostnað á landsbyggðarfólk og fyrirtæki til viðbótar þeim miklu hækkunum og auknum mismun sem leiddi af uppskiptingu á framleiðslu og dreifingu á raforku. Við upptöku nýrra skatta þarf að leita leiða til að jafna þennan mismun aftur.“

Herra forseti. Þeir segja í lokin:

„Aðalatriðið er þó að þessi nýja skattlagning mun koma fram sem verðhækkun á innlendum matvörum, helstu neysluvörum heimilanna, og þannig skerða lífskjör alls almennings. Eins og aðrar skattbreytingar sem leggjast á vöru og þjónustu munu þessir skattar hafa áhrif á verðbólgu og þar með verðtryggð lán.“

Allt hnígur þetta nú að sömu niðurstöðunni, sem er sú sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta þar sem lagt er til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og minnt er á að tekjurnar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu geta fengist með skattlagningu séreignarsparnaður eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt fram, við höfum lagt fram mál um það.

Herra forseti. Ég hef bæði á sumarþingi og eins á því þingi sem við sitjum nú verið að leitast við að fá fram hver atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að koma því til leiðar að fleiri einstaklingar sem ganga um atvinnulausir komist í störf? Hvernig ætla ríkisstjórnarflokkarnir að stuðla að því að fyrirtækin, sem eru vissulega rekstrarhæf, en eru mjög skuldsett vegna breytts gengis o.s.frv., eins og allir þekkja, komi til með að standa sterk og komast út úr þessum vanda sem vissulega blasir við okkur öllum? Við þessum spurningum hef ég ekki fengið nein svör. Engin svör. Ekki nokkur einustu svör.

Það virðist vera algjört úrræðaleysi við ríkisstjórnarborðið því miður vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að við reynum að hugsa markvisst og hlusta svolítið hvert á annað. Nú höfum við sjálfstæðismenn lagt fram í tvígang viðamiklar efnahagstillögur, bæði á sumarþingi og eins á þessu haustþingi. Á það hefur ekki verið hlustað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki virðist vera hægt að ræða hugmynd okkar um skattlagningu séreignarsparnaðar, sérstaklega ekki við hæstv. fjármálaráðherra en margir stjórnarþingmenn hafa vissulega tekið vel í hana þegar maður hittir þá á göngunum. Þeirri hugmynd virðist einfaldlega kastað út af borðinu, óskoðaðri, af því hún kemur frá sjálfstæðismönnum. Þetta er einfaldlega einhver stjórnarstefna hjá ríkisstjórninni sem á ekki að vera í boði á þeim tímum sem við lifum hér í dag.

Ég vonast til að ríkisstjórnarflokkarnir taki sér tak, fari vel yfir hugmyndir okkar og eins framsóknarmanna til þess að reyna að leita allra annarra leiða en að koma því þannig fyrir að við skattleggjum heimilin, fyrirtækin í landinu, þannig að við aukum einfaldlega á vandann. Það eru mínar áhyggjur. Og úrræðaleysið eða hugmyndaleysið hjá ríkisstjórninni er algert vegna þess að hún hefur engar aðrar tillögur en að hækka skatta frekar. Það er mjög dapurlegt og ekki það sem á þarf að halda.

Herra forseti. Hér kom áðan í ræðustól hæstv. fjármálaráðherra. Eins og venjulega var ekki talað á málefnalegan hátt um þessi mál. Það var einfaldlega bent á það að við stæðum í þessu öllu saman og hér hefði orðið efnahagshrun og alheimskreppa vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé til. Þetta virðist vera eina röksemdin sem sá ágæti hæstv. ráðherra getur notað en ég er bara algjörlega ósammála því að það sé það sem fólk þarf að heyra endalaust og að eina útskýringin á því sem aflaga fór sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé til.

Hér voru haldnar kosningar. Þessi ríkisstjórn, þeir flokkar sem í henni sitja, hefur stjórnað þessu landi í 11 mánuði — og nokkra daga, mundi Pétur Blöndal leiðrétta mig, ef hann sæti hér í salnum eins og venjulega. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í 11 mánuði. Nú má ég og nú get ég, sögðu þeir flokkar fyrir kosningar, nú skulum við stjórna. Þá verða menn líka að geta horft framan í kjósendur sína, horft framan í þá Íslendinga sem hér búa, og borið ábyrgð á sínum eigin stjórnarathöfnum. Það finnst mér hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þó vísa ég sérstaklega til ræðu hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, ekki vera að gera.

Vissulega bera þeir flokkar sem starfað hafa í ríkisstjórn og starfað hafa á landinu mikla ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á því sem hefur verið gert hér á undanförnum árum. Við bárum ábyrgð á því, þeir flokkar sem voru á þingi og þeir einstaklingar sem sátu í þingsalnum, þegar við innleiddum gallaða tilskipun ESB. Það er einfaldlega þannig. Á þessu bera menn ábyrgð. En ég leyfi mér að fullyrða, miðað við það vinnulag sem ég hef séð hér í þinginu varðandi innleiðingu EES-tilskipana og allra þeirra gerða sem koma frá Evrópusambandinu — það er ekki gert ráð fyrir því að þingið sé að breyta mikið út frá þeirri stefnu sem sett er úti í Brussel. Það er einfaldlega ekki leyfilegt. Ef það hefði verið gert hefðum við fengið á okkur einhvers konar dóma og refsingar frá Evrópusambandinu. En á þessu bera menn vissulega ábyrgð, það er rétt.

Vissulega hefðu hér átt að vera sterkar eftirlitsstofnanir, ég tel það algjörlega ljóst. En svo var ekki og á því bera menn líka ábyrgð. En ef menn eiga hér að bera alla ábyrgð, sjálfstæðismenn, á öllu því sem illa fór á síðustu árum, og alheimskreppunni að sjálfsögðu líka, skulum við líka ein bera ábyrgð á því sem vel hefur verið gert. Er þá ekki bara sanngjarnt að tala um það þannig? Að mati hæstv. þingmanna Vinstri grænna væri það væntanlega mjög sanngjarnt, þar sem málflutningurinn er nú allur í þessa áttina. En ég held að þeir aðilar sem setið hafa á þingi og unnið hafa í stjórnkerfinu á undanförnum árum beri t.d. ábyrgð á því að hér á landi var fjölgað mjög þeim tækifærum sem ungt fólk hafði til þess að mennta sig, sem þýðir það að við eigum mjög vel menntaða þjóð. Það er ein af þeim grunnstoðum sem við komum til með að byggja endurreisn okkar á. Það er þessi staðreynd. Ég hygg að flest allir þeir þingmenn sem hér hafa starfað á undanförnum árum vilji telja að þeir beri svolitla ábyrgð á þessu. Þannig er það.

Jafnframt er hér mjög sterkt lífeyrissjóðakerfi. Þrátt fyrir allt er það þannig. Á þessu skulu þeir þingmenn sem hér hafa starfað, og væntanlega bara Sjálfstæðisflokkurinn að mati Vinstri grænna, bera ábyrgð.

Við eigum miklar auðlindir á Íslandi og við höfum búið þannig um hnútana að við eigum gríðarlega vel menntað og fjölhæft fólk sem þekkir það hvernig hægt er að nýta þær auðlindir. Ef við sjálfstæðismenn eigum að bera ábyrgð á öllu sem illa fór og jafnframt á alheimskreppunni skulum við líka bera ábyrgð á þessu. Við skulum bera ábyrgð á þessu og þetta er ein af þeim grunnstoðum (Gripið fram í.) sem við komum til með að búa að og komum til með að byggja endurreisn okkar á.

Síðast en ekki síst býr hér í landinu mjög ung þjóð. Það er einn af okkar helstu styrkleikum og enn ein stoðin sem við komum til með að byggja á til framtíðar. Við getum alveg lagt það þannig upp að þegar hér er búið til samfélag þar sem er auðvelt fyrir fólk að eignast börn, það á ákveðin réttindi til fæðingarorlofs til dæmis, að það sé þá stefna sem hvetji til frekari barneigna. Á þessu skulum við bara bera ábyrgð við sjálfstæðismenn, alein, ef það er það sem menn vilja. Ef það er sú röksemdafærsla sem Vinstri grænir ætla endalaust að halda fram hér í þingsalnum (Gripið fram í.) skulum við líka bara bera ábyrgð á því að hér séu allar þessar sterku stoðir til sem við komum til með að byggja framtíð okkar á.

Við skulum bara tala þannig um hlutina það sem eftir er hér í þessu þingi, ef menn ætla ekki að fara að horfast í augu við það að þeir sjálfir hafi verið við völd í 11 mánuði. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem bera ábyrgð á því að hafa nú afhent ESB yfirstjórn þeirra loftslagsheimilda sem við eigum. Þeir bera ábyrgð á því að við erum hér í einhverju skrýtnasta aðildarumsóknarferli að ESB sem um getur (Forseti hringir.) í sögunni. (Forseti hringir.) Þeir bera ábyrgð á því hvernig Icesave-samningarnir líta út og þeir bera ábyrgð á því að nú er verið að skattleggja heimilin og atvinnulífið (Forseti hringir.) í landinu frekar.