138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður bauðst til þess að Sjálfstæðisflokkurinn mundi bera ábyrgð á öllum barneignum í framtíðinni hér á Íslandi. Ég treysti Sjálfstæðisflokknum til margra góðra verka en ég held kannski að fleiri ættu að koma að því en Sjálfstæðisflokkurinn einn og uppfylla með þeim hætti boðorð hinnar helgu bókar.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Margt í henni var alveg prýðilegt. Ég deili ekki skoðunum þingmannsins og öllum hlutum, eins og hv. þingmaður sagði, en sumt í ræðu hennar kom mér á óvart og sumt fannst mér ákaflega gott. Ég er gamall ferðamálaráðherra og fáu hef ég komið að á mínum pólitíska ferli sem ég hef haft jafnmikla unun af og mikla ánægju og gleði og einmitt að starfa að ferðamálum. Þess vegna gladdi það mig alveg sérstaklega að eftir að hv. þingmaður hafði haldið eldmessu um stöðu ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar gat hún ekki, af því hún er ærleg manneskja, annað en sagt sannleikann í málunum fyrir sitt kjördæmi. Hv. þingmaður sagði að þrátt fyrir það sem henni fannst vera heldur vont atlæti af hálfu ríkisstjórnar gagnvart ferðaþjónustunni væri nú svo komið í hennar kjördæmi að fyrir næsta sumar væri í reynd búið að fullnýta allt gistirými á Suðurlandi. Ég segi nú bara sem gamall ferðamálaráðherra: Ja, til einhvers var barist.