138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hér í pontu og eiga við mig andsvar. Það kom mér svolítið á óvart að þetta skyldi vera eina atriðið í minni ræðu sem hann taldi sig þurfa að svara en það er gott. Össur Skarphéðinsson, hæstv. núverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi ferðamálaráðherra, telur sig þá væntanlega bera einhverja ábyrgð á því hvernig ferðamálum er háttað hér á landi. Það er gott að menn kannist við ábyrgð sína, að það sé ekki Sjálfstæðisflokknum að kenna — eða þakka — hvernig ferðaþjónustan hefur verið rekin hér á undanförnum árum.

Aðilar í ferðaþjónustu hafa nú þegar selt og verðlagt sína þjónustu fyrir næsta sumar og þegar þessar skattahækkanir koma til er ekki hægt að breyta þeirri verðlagningu sem menn hafa þegar gert samninga um. Ef það verður hins vegar gert, þar sem fyrirtækin telja sig einfaldlega ekki ráða við að greiða þessa skatta á þeim grundvelli sem rekstur þeirra verður næsta sumar án þess að hækka verð, getur vel verið að koma þurfi til þess að verð verði hækkað. Hvað gerist þá með samninga? Það getur vel verið að eitthvað breytist með það og bókanirnar þar. Nú tók ég kannski stórt upp í mig, ég veit ekki hvort ég orðaði það nákvæmlega þannig að hvert einasta rúm væri bókað fyrir allt næsta sumar á Suðurlandi, en ég tel að bókanir hafi farið mjög vel af stað og yfir stærstu sumarmánuðina sé nánast að verða fullt á Suðurlandi enda er það mikið ferðamannasvæði og menn hafa mikið sótt þangað.

Frú forseti. Þessar skattahækkanir koma einfaldlega illa við ferðaþjónustuna. Ég tel að hæstv. ráðherra geti ekki verið ósammála mér um það, sérstaklega ekki ef hann les þær umsagnir sem hafa komið fram í þessu máli frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og öðrum aðilum sem hafa skoðað þessi mál fyrir ferðaþjónustuna og með henni. Því væri ágætt að fá að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji að þessar skattahækkanir komi ekki til með að hafa nein áhrif á (Forseti hringir.) rekstrarumhverfi ferðaþjónustuaðila.