138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hvatti okkur til þess að hlusta hvert á annað. Það hef ég verið að gera. Ég hef hlustað á ræðumenn í dag, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, og það er sitthvað sem hefur vakið athygli mína.

Í fyrsta lagi vekur það athygli hve tilfinningaþrungin umræðan er. Það er kannski ekkert skrýtið. Umræðan um fjárlög og tekjuöflun ríkissjóðs sem fram fer í þinginu þessa dagana er við mjög sérstakar aðstæður og helst saman að jafna árinu í fyrra eftir hrun fjármálakerfisins í landinu, sem hefur síðan orðið til þess að gríðarlegt hrap hefur orðið í tekjum ríkis og sveitarfélaga og jafnframt útgjaldaauki. Útgjaldaaukinn er m.a. vegna þess að öll aðföng til landsins verða dýrari. Sneiðmyndatæki á Landspítala verður miklum mun dýrara en það hefði ella verið. Lyfin sem við notum á sjúkrahúsunum og heimilum þar sem sjúkt fólk er sem þarf á lyfjum að halda hafa líka rokið upp úr öllu valdi, þau sem flutt eru erlendis frá og það á við um dýrustu lyfin, krabbameinslyfin, gigtarlyfin. Allur þessi kostnaður hefur rokið upp.

Þá er spurningin: Hvað er til ráða? Þörfin fyrir auknum útgjöldum þrýstir á en jafnframt hefur orðið tekjuhrap ríkis og sveitarfélaga. Ég hlustaði eftir því sem ýmsir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu hér í dag, að við slíkar aðstæður ættum við ekki að ráðast í mikla skattlagningu, hvorki á einstaklingum né fyrirtækjum. Við ættum að leggja höfuðáherslu á að breikka skattstofnana og gera einstaklingum og fyrirtækjum lífið auðveldara. Það er alveg rétt, það er auðveldara að bera litla skatta en mikla skatta. Staðreyndin er hins vegar sú að gatið sem við erum að reyna að stoppa upp í er geigvænlegt. Á þessu ári er hallinn á ríkissjóði um 160 milljarðar. Þrátt fyrir skattahækkanir sem við erum að ráðast í núna upp á 35–40 milljarða, við jukum líka skatta í vor, og þrátt fyrir niðurskurð í útgjöldum ríkisins upp á 50 milljarða eða þar um bil er fyrirsjáanlegt að hallinn á næsta ári verður um eða yfir 100 milljarðar. Hvað gerum við þá? Skjótum við vandanum á frest? Það kostar vegna þess að ef við skjótum vandanum á frest verðum við að ráðast í lántöku. Til þess að borga launin á Landspítalanum, til þess að borga útgjöld almannatrygginga, til þess að greiða fyrir skólakerfið þurfum við að taka fjármuni að láni og þeir standa á vöxtum og vextir eru háir, peningar eru dýrir.

Er það þetta sem menn vilja að við gerum? Er það þetta sem Sjálfstæðisflokkurinn er að leggja til? Nei, ég geri ráð fyrir að hann vilji þá fara aðrar leiðir og hann hefur komið með tillögur þar að lútandi. Hann hefur m.a. sagt: Það sem við gætum gert er að taka skatta af fjármunum sem nú liggja í séreignarlífeyrissparnaði. Fyrst var það í lífeyriskerfinu almennt og nú er búið að þrengja það inn í þetta. Er það vitlaus ráðstöfun? Nei, hún þarf ekki að vera það. Þetta eru fjármunir sem hvort sem er verða einhvern tíma skattlagðir. Þegar við fáum greitt úr lífeyrissjóðum eru þeir fjármunir skattlagðir. Það sem hugsunin gengur út á er að við þessar þrengingar núna til að komast út úr vandanum, til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar, væri þetta gott ráð. Vandinn er hins vegar sá að þá erum við að verða af þessum skatttekjum í framtíðinni sem er harla óljós, vegna þess að á okkur, á þjóðarbúinu og ríkissjóði og sveitarsjóðum hvíla miklar ábyrgðir og skuldbindingar sem við þurfum að geta greitt fyrir þegar þar að kemur. Að mínum dómi, þó að þetta gæti verið neyðarúrræði að grípa til einhvern tíma, ég útiloka það alls ekki og reyndar var ég því alltaf fylgjandi að skattleggja frekar í þennan endann, en látum það vera, þá er það staðreynd eftir sem áður að við erum að fresta þarna vandanum í reynd. Við erum að verða af skattheimtu þegar við kynnum að þurfa ekki síður á henni að halda en núna. Þessi hugsun, þessi nálgun er því að mínum dómi ekki ráðleg núna.

Hvað gerum við þá? Jú, við ráðumst í niðurskurð á ríkisútgjöldum, mjög mikinn, upp á 50 milljarða eða þar um bil, sem er erfitt — þessi niðurskurður kemur til með að verða erfiður þótt við lítum svo á að það sá óhjákvæmilegt að ráðast í umtalsverðan niðurskurð — og við hækkum skatta, en þó ekki meira en svo að eftir stendur gat upp á 100 milljarða á næsta ári. Þetta er vandinn og þá vaknar spurningin: Hvernig eigum við að haga þessari skattlagningu? Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ýmsir hafa orðið til að andmæla henni og mótmælt henni mjög harðlega. Álfyrirtækin hafa borið sig mjög illa, flutningsaðilar hafa gert það líka, segja að kolefnisskatturinn komi til með að gera samgöngur dýrari og flutninga innan lands dýrari. Þetta er rétt.

Þeir skattar sem við höfum verið að tala um hér eru aðeins brot af því sem við erum að ráðast í. Við erum að tala um skattlagningu upp á 5,9 milljarða eða þar um bil. Kolefnisgjaldið er 2,5 milljarðar, raforkuskatturinn sem nemur 2,2 milljörðum, raforka og heitt vatn líka, og síðan er það skattur á stóriðjufyrirtækin upp á 1,2 milljarða árlega á næstu þremur árum. Hvernig er það til komið, hvernig er þessi samsetning til komin? Það segir frá því í greinargerð meiri hlutans hvert hið sögulega ferli er. Við lögðum upp með þyngri byrðar á stóriðjufyrirtækin. Ég var t.d. mjög fylgjandi þeirri áherslu. Þau andmæltu þessu harðlega og fengu aðila vinnumarkaðarins til að ýta á í því efni og menn vildu leita annarra lausna. Þá varð til þessi tekjuskattsskattlagning fram í tímann, menn hafa deilt um hana, hvort það sé rétt eða rangt að standa að því. Þetta var það sem þau vildu og samtök á vinnumarkaði vildu.

Þegar verið er að tala um samráð og samráðsleysi, þá er á þessari síðu og niður á hálfa næstu síðu upptalning á öllum þeim aðilum sem komu fyrir efnahags- og skattanefnd þingsins til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Áður höfðu þau jafnframt átt viðræður við fjármálaráðuneytið og reynt var að taka tillit til þessara sjónarmiða. Þetta varð sem sagt niðurstaðan, sem ég tel vera mjög hyggilega, þetta er ekki slæm niðurstaða. Þess vegna skil ég ekki hve andheitir menn hafa verið í ræðuflutningi þegar þeir hafa verið að andmæla þessari skattlagningu sem mér finnst vera réttlát. Sem áður segir hefðum við mörg viljað fara brattar gagnvart stóriðjunni, við teljum hana aflögufæra og út á það gengur þetta allt saman. Það er þetta sem gerir okkur að félagslega sinnaðri ríkisstjórn.

Ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiðum markaðshyggjumanna, fyrir sjónarmiðum hægri manna sem segja: Við viljum hafa skatta í lágmarki og láta notandann síðan borga beint, svona à la USA. En er það hyggilegt, er það gott? Vilja menn frekar borga aðgangseyri að Landspítalanum beint þegar þeir verða veikir? Eða viljum við axla skattana á meðan við erum frísk og aflögufær? Ég vil það. Við viljum það í þessari ríkisstjórn. Það gerir okkur að félagslega ábyrgri ríkisstjórn og þess vegna hrín ekkert á okkur þegar menn eru væla yfir og gagnrýna áherslur okkar vegna þess að það er á þessum forsendum sem við tökum afstöðu í stjórnmálum. Við viljum leita félagslega réttlátra lausna.

Getur verið að það hreyfi við miðtaugakerfi Sjálfstæðisflokksins þegar minnst er á auðlindagjald, eða hver er skýringin á því að hér hefur komið í ræðustól hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum, ekki til að ræða eingöngu um innihald þessa frumvarps heldur um nafngiftina, og reynir að færa fram rök fyrir því að þetta sé ekki auðlindaskattur heldur skattur á nýtingu hennar, afleiddur skattur á raforkuna, heita vatnið, en ekki á auðlindina? Um þessi grunngildi er tekist á í íslenskum stjórnmálum. Það sem mér finnst vera verkefni okkar og viðfangsefni á næstu missirum og árum er að slá skjaldborg um auðlindirnar, ná utan um þær, ná eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindunum og nýtingu þeirra. Síðan virkjum við markaðslögmálið við ýmsa þætti í þessari nýtingu, það er allt annar handleggur, enda erum við fylgjandi því að hafa hér kröftugt blandað hagkerfi. Við höfum verið talsmenn þess allar stundir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að búa í haginn fyrir kröftugri atvinnustarfsemi. Þess vegna erum við með tillögur til að efla nýsköpun, það er á meðal þeirra tillagna sem hafa legið fyrir þinginu og við höfum verið að samþykkja.

Við höfum verið þess fýsandi að reyna að halda fjármagnskostnaði niðri. Við höfum verið fýsandi þess og unnið að því að skapa hér fjármálakerfi, bankastarfsemi sem er markviss og þjónar einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Því miður fengum við í fangið í boði fyrri ríkisstjórna ófreskju sem við erum enn að glíma við. Heldur einhver að það sé vegna þess að okkur langi til að auka álögur á fyrirtæki og fólk sem við erum að hækka skatta? Nei, það er vegna þess að við eigum ekki annarra kosta völ. Við eigum ekki annarra kosta völ ef við ætlum að varðveita það mikilvægasta sem við búum yfir sem er velferðarþjónustan í landinu og það er líka góður bisness. Það er hyggilegt.

Atvinnurekendur í Danmörku voru einu sinni spurðir í könnun, ég held að það hafi verið 1997, danska atvinnumálaráðuneytið spurði: Hvað þarf að vera til staðar svo þið fáið blómstrað? Hvað þarf að vera til staðar sem lokkar ný fyrirtæki inn á ykkar svæði? Hverju skyldu menn hafa svarað? Góð barnaheimili, góðir spítalar, góðar samgöngur, að menn komist í samband við internetið, að öldrunarþjónustan sé góð. Þetta voru svörin frá atvinnulífinu. Og þá er spurningin: Hvernig ætlum við að greiða fyrir þetta? Við ætlum að greiða það með sameiginlegum sköttum vegna þess að ella eru klyfjarnar og byrðarnar lagðar á þá sem ekki eru í stakk búnir, sem ekki hafa burði til að bera þær. Út á það gengur öll þessi umræða.

Þess vegna segi ég: Það er rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að við eigum að hlusta hvert á annað, það er rétt. En þetta eru þau sjónarmið og þær áherslur sem eru þess valdandi að ég styð þessar breytingar, að ég styð þessa skatta. Það er alveg hárrétt sem fram kom í máli hennar og margra annarra í stjórnarandstöðunni að þetta kemur til með að verða þungt og þyngra fyrir mörg fyrirtæki, fyrir marga neytendur, það er rétt. En hverjir eru valkostirnir? Þetta er spurning um að finna hina hæfilegu blöndu og ég tel að okkur sé að takast það bara bærilega.