138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir hlý orð í minn garð. Það er gott að ég náði að hlusta á hans ágætu ræðu þótt við séum að sjálfsögðu ekki sammála í öllum atriðum. Við eigum nefnilega annarra kosta völ. Við eigum þess kost að fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn og ég er ánægð að heyra að hv. þingmaður slær þetta mál ekki út af borðinu eins og sumir hv. þingmenn, sérstaklega samflokksmenn hans, hafa gert og að mínu mati einfaldlega allt sem kemur frá okkur sjálfstæðismönnum. Ég fagna þeirri yfirlýsingu.

Í máli hv. þingmanns kom fram að þetta gæti hugsanlega verið neyðarúrræði, ef og þegar þar að kæmi, en við sjálfstæðismenn setjum þetta fram af því að við teljum að það sé full þörf á að nota þetta neyðarúrræði. Ég er algerlega sammála því að það er neyðarúrræði að gera þetta en það er mín sannfæring að staðan sé sú að það verði að fara í þetta núna vegna þess að ég tel að heimilin í landinu og atvinnulífið þoli ekki allar þær skattahækkanir sem núverandi ríkisstjórn leggur til. Þar liggur kannski grundvallarmunurinn á sjónarmiðum okkar í þessu máli. Ég tel einfaldlega að tímapunkturinn sé núna, ekki síst vegna þess að okkur hefur ekki tekist á undanförnum mánuðum að ná tökum á ríkisfjármálunum, því miður. Ef við horfum á valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekki tekist að skera niður ríkisútgjöldin og við sjáum það best á því að tekjujöfnuður þeirra fjárlaga sem við ræðum nú á þinginu hefur lækkað um 14,4 milljarða milli umræðna. Það er því algerlega ljóst að viljinn til að skera niður, og hugsanlega einfaldlega getan til að gera það loksins þegar menn eru komnir í ríkisstjórn, er ekki til staðar. Við verðum að taka okkur tak. Það er neyðarástand í ríkisfjármálunum (Forseti hringir.) og þess vegna leggjum við fram tillöguna um lífeyrissparnaðinn.