138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála ýmsum áherslum sem fram komu í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Ég held að varðandi séreignarsjóðina sé ekki hyggilegt að fara út á þessar brautir en það er alveg rétt, við erum að glíma við vanda inn í framtíðina sem við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af en reynum að taka skynsamlega á.

Hvort við séum að skera of mikið niður í velferðarþjónustunni — þar held ég einfaldlega að við þurfum að vera mjög á tánum og fylgjast með afleiðingum gjörða okkar. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að við séum reiðubúin að endurskoða allar okkar gerðir. Hlutirnir gerast mjög hratt. Margt sem gerist er ófyrirsjáanlegt og ég hef verið því mjög fylgjandi að við séum með allt fjármálavelferðarkerfið (Forseti hringir.) í stöðugri endurskoðun.