138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætar vangaveltur um hugmyndir okkar sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarlífeyris. Í máli hv. þingmanns kom fram að hann hafði mjög jákvæðan skilning gagnvart þessari hugmynd. Við höfðum líka ástæðu til að ætla að þessi hugmynd okkar nyti heilmikils stuðnings í ríkisstjórnarhópnum. Annar hv. þingmaður, raunar hæstv. utanríkisráðherra, hafði talað með þeim hætti þegar við settum þessa hugmynd fram þannig að nú eru þeir orðnir a.m.k. tveir sem setið hafa í ríkisstjórninni og tekið jákvætt undir þessi sjónarmið.

Síðan varð niðurstaðan auðvitað sú að ríkisstjórnin kaus að fara ekki þessa leið. Ég átti að sumu leyti dálítið erfitt með að átta mig á því hvað olli því að ríkisstjórnin gat ekki hugsað sér að reyna að skoða þetta betur en raunin varð. Ég skildi það hins vegar betur þegar fram kom sjónarmið nánustu samverkamanna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, og hér er ég auðvitað að vitna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lýsti því yfir fyrir tveimur dögum eða svo að þessi leið væri alveg ómöguleg. Þá var málið orðið mjög skiljanlegt vegna þess að röddin að handan hafði talað, röddin frá Washington hafði talað og þá var auðvitað ekki eftir neinu að bíða, það varð að hlýða. Það er skýringin.

Hv. þingmaður var síðan með áhugaverðar vangaveltur um það sem hann kallar hið félagslega réttlæti. Út af fyrir sig væri áhugavert að eiga við hann nokkrar viðræður um það en ég spyr, vegna þess að hann talaði um það í samhengi við það frumvarp sem við ræðum hér: Finnst hv. þingmanni það vera til marks um félagslegt réttlæti að við samþykkjum frumvarp sem hækkar sérstaklega vöruverð á landsbyggðinni sem bitnar harðast á þeim orkunotendum þar sem orkuverðið er hæst, hækkar skatta á venjulegum fjölskyldubíl ásamt öðru um allt að 50% á þessu ári og skerðir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og skaðar nýsköpun í atvinnulífinu? Mér finnst þetta ekki til marks um (Forseti hringir.) félagslegt réttlæti en ég veit að við hv. þingmaður (Forseti hringir.) erum kannski ekki endilega sammála um það hugtak.