138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem ættu erindi upp á þingpallana til að lýsa áhyggjum sínum yfir þessu frumvarpi eru ekki endilega forstjórar álfyrirtækjanna. Það er ekki síst hið venjulega fólk sem á morgun og næstu daga þarf að fara að kaupa bensín á heimilisbílinn sinn. Það er fólkið á landsbyggðinni sem þarf að fara að taka upp budduna þegar ríkisstjórnin er búin að ná sínu fram og hækka vöruverðið á landsbyggðinni, það er það fólk sem þarf að borga orkureikningana sína bak áramótum eftir að búið er að setja á sérstaka skatta sem munu hækka orkuverðið, mest þar sem það er hæst fyrir.

Aðeins síðan út af lífeyrissparnaðinum. Ég velti því upp sem mér fannst vera áhugavert og athyglisvert að sá aðili sem hefur brugðist harðast við í þessum efnum úr hópi samverkamanna hæstv. ríkisstjórnar er auðvitað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Og þá þarf ekkert um að binda, þá þarf ekkert um að véla, þá þarf ekki að efast lengur, það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir er stefna ríkisstjórnarinnar.