138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðu hans áðan. Mér finnst hún að mörgu leyti mjög málefnaleg. Og ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég vildi að við ættum fleiri svona stundir í þinginu því að þetta var nefnilega hárrétt sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði og hann tók upp að við eigum auðvitað að bera virðingu fyrir skoðunum hver annars og hlusta hvert á annað. Það er nefnilega mjög gott í allri ákvarðanatöku — ég þekki það mjög vel sjálfur persónulega — eða ég hef alltaf litið þannig á að þegar maður er að taka erfiðar ákvarðanir sem maður er hugsanlega í vafa um að séu réttar er mjög gott að fá aðra hlið á málinu til að gefa manni rétta sýn. Það styrkir mann þá í því að maður sé að taka rétta ákvörðun. Ég fagna þessari breytingu. Ég held að það færi vel á því að hv. stjórnarþingmenn, margir hverjir, mundu nálgast málefnin eins og hv. þingmaður gerði. Hann færði ákveðin rök og ágætisrök fyrir þeirri sýn sem hann hafði á málinu og hefur síðan hlustað á rök annarra hv. þingmanna og það er af hinu góða.

Það sem við ræðum nú er að sjálfsögðu eitt þeirra skattalagafrumvarpa sem ríkisstjórnin er að leggja fram og von er á mörgum á næstu dögum. Það sem mig langar að ræða í fyrsta lagi er að boðað hafði verið af hálfu ríkisstjórnarinnar að allar skattbreytingar og tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins yrðu í síðasta lagi klárar fyrir 15. nóvember. Það var mjög eðlilegt markmið þannig að menn hefðu tíma til að átta sig á því, þegar fara á í eins veigamiklar breytingar og verið er að gera núna þurfa menn að hafa tímann fyrir sér. Það var hins vegar ekki fyrr en vika var liðin af desember sem þessi frumvörp komu inn í þingið og eflaust eru margar ástæður fyrir því en ég hafði talið mun skynsamlegra þegar farið er í svona viðamiklar breytingar að menn hefðu skoðað þetta betur. Síðan getum við, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, deilt um það hvort er skynsamlegra að fara þá leið að hækka skattana núna eða taka út séreignarsparnaðinn og greiða niður halla ríkissjóðs þannig. Ég tel hins vegar skynsamlegra að fara séreignarsparnaðarleiðina núna til að reyna að styrkja skattstofnana, koma þeim í gang, og síðan hugsanlega að fara í skattahækkun á næsta ári ef þetta dugar ekki til að styrkja þá það mikið að tekjur komi til baka. En þetta eru atriði þar sem menn verða að bera virðingu fyrir skoðunum hver annars, þannig að það ágætt ef menn ræða málin á þessum nótum.

Ég vil líka fara aðeins yfir það að þegar menn standa í þeim sporum sem við erum í núna eru ekki nema tvær leiðir, annaðhvort að hækka skatta eða draga úr útgjöldum, annaðhvort að afla tekna eða draga úr útgjöldum. Það er ekki flókið, þetta er nákvæmlega það sama og þegar maður rekur heimili sitt. Það eru tvær aðferðir til að rétta þennan gríðarlega halla sem eru 160 milljarðar. Þetta er náttúrlega verkefni sem við verðum að taka saman höndum um að berjast við og það var þess vegna, virðulegur forseti, sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd fórum að vinna þetta út frá þeim grunni. Ég er ekki þingreyndur maður, búinn að sitja á þingi síðan í vor, en ég hef hins vegar komið mjög lengi að rekstri og geri mér alveg grein fyrir hvað þarf að gera. Það þarf að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir vegna þess að við getum ekki lifað við þennan halla upp á 160 milljarða, við stefnum að því að í lok ársins 2010 verði hann 101 milljarður. Það var af þeim ástæðum, virðulegi forseti, sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til og réttum fram sáttarhönd að mínu mati og sögðum við ríkisstjórnina og hv. stjórnarþingmenn: Við skulum koma í enn frekari vinnu með ykkur og skera niður um 8 milljarða til viðbótar. Við skulum koma og vinna vinnuna með ykkur í fjárlaganefnd, skipum vinnuhóp frá öllum fulltrúum flokkanna, förum í enn þá meiri niðurskurð, við skulum standa með ykkur og við hlið ykkur en ekki garga á ykkur úti í samfélaginu. Við skulum bera ábyrgð á frekari niðurskurði. Ég tel að við höfum verið mjög ábyrgir í afstöðu okkar.

Það sem breytir þessu líka og ég vil koma inn á, hæstv. forseti, er það að ef þær tillögur sem við leggjum til, 1. minni hluti í fjárlaganefnd, yrðu samþykktar mundi halli ríkissjóðs lækka úr 102 milljörðum niður í 76 milljarða eða 26 milljarða minni halli með því sem við leggjum til og þar á meðal er þetta þar inni.

Það sem við leggjum líka til til viðbótar, virðulegi forseti, og mér fannst hæstv. fjármálaráðherra misskilja aðeins áðan, er hugmynd sem ég hef gengið með í kollinum í nokkra mánuði. Við erum að fá á næsta ári nýtt varðskip sem kostar okkur 5 milljarða, við þurfum að greiða á næsta ári í fjárlögunum um 1.700 millj. í lokagreiðslu á varðskipinu og í fjárlögum fyrir árið 2010 er ekki gert ráð fyrir að reka skipið, það er einungis gert ráð fyrir því að sigla skipinu heim. Það er því ekki einföld ákvörðun fyrir mig, mann sem er búinn að vera á sjó alla ævi, að leggja það til að þetta nýja varðskip verði selt og beðið átekta vegna þess að Norðmenn hafa hug á að láta smíða fyrir sig sambærilegt varðskip, en ég met það svo að þetta muni ekki koma niður á öryggismálum sjómanna heldur þurfum við að tryggja þyrlu í því efni. Ég mundi aldrei leggja fram tillögu sem minnkaði öryggi sjómanna. Þess vegna nálgaðist ég verkefnið með þessum hætti, að við mundum gera þetta svona. Það kemur líka fram að forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar gera sér vonir um að þeir fái hálfan milljarð sem skaðabætur vegna tafa á verkinu, við gætum verið að tala um 5,5 milljarða sem við gætum fengið þar og það er ekki inni í tillögum okkar sjálfstæðismanna um að minnka hallann um 26 milljarða. Við þurfum einmitt á þessum tímum að taka svona ákvarðanir. Við getum frestað því að fá varðskip í tvö, þrjú ár eða hvað það er til þess einmitt að ná utan um vandann, það er mjög mikilvægt og hefur komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum að við getum ekki rekið ríkissjóð með þessu, með því að vera með 100 milljarða halla. Það er því miður ekki hægt, það stefnir okkur bara í þrot til lengri tíma litið.

Það er alveg rétt sem síðasti ræðumaður kom inn á að auðvitað er grunnurinn að velferðarkerfinu í landinu hvernig atvinnulífinu gengur. Það sem gefur okkur skattstofn er að byggja upp atvinnulífið. Mér fannst það nefnilega nokkuð góð samlíking þegar hv. þingmaður benti á könnunina sem gerð var í Danmörku. Þetta er nákvæmlega það sem við erum búin að svara svo oft í sveitarfélögunum. Það er fyrst og fremst þetta öryggi með skólana, með læknisþjónustuna og þetta allt saman. Við þekkjum mörg dæmi um að ekki þarf nema einn læknir að hætta þá fer samfélagið upp í loft, það kemur óöryggi í samfélagið. Þetta er grunnurinn að velferðarkerfinu okkar að gera þetta. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni enda er þetta margsannað. En það sem mér finnst líka vera að og mér finnst vanta núna hjá hæstv. ríkisstjórn er að taka akkúrat svona ákvarðanir, að fara í hluti þar sem hægt er að gera slíkt. Allir eru sammála um að hlífa þarf velferðarkerfinu og menntakerfinu, en við þurfum að fara í ákveðnar aðgerðir. En það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera núna, og þar er ég kannski aðeins ósammála hv. þingmanni eða algerlega, að í sparnaðaraðgerðum hennar hefur verið mjög mikið af einskiptisaðgerðum þar sem hún ætlar að skera niður á næsta ári upp undir 40 milljarða, þar er eiginlega helmingurinn slíkar aðgerðir, fresta á vegagerð um 9 milljarða, hætt er við kaup á húseignum hjá utanríkisþjónustunni upp á 2 milljarða, lækka á tekjur hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum um 6,2 milljarða og þar fram eftir götunum, maður telur strax upp í tæpa 20 milljarða. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki vera að gera þetta af þeirri stefnufestu sem ég tel að þurfi að gera. Nú þurfum við að fara akkúrat í svona aðgerðir, að taka þessar stóru tölur, til að koma skikki á málið.

Síðan langar mig aðeins að minnast á það, hæstv. forseti, af því að ég gleymdi að koma inn á það í sambandi við Landhelgisgæsluna, að við eigum nýtt og stórglæsilegt skip sem heitir Árni Friðriksson sem er hafrannsóknaskip. Aðstæður okkar í þjóðfélaginu eru þannig núna að þetta skip liggur orðið hugsanlega fleiri daga í landi en það er á sjó vegna þess að við höfum ekki efni á að reka það. En samt ætlum við að taka varðskipið nýja og sigla því heim og binda það til viðbótar. Ég segi, virðulegi forseti, það er ekkert vandamál að samnýta þetta góða stóra skip með þeim verkefnum sem þarf að gera hjá Landhelgisgæslunni. Það er ekkert vandamál. Það mun þýða mikinn sparnað, mikla hagræðingu, ég tala ekki um ef við fáum kannski milli 5 og 6 milljarða í beinar tekjur inn í ríkissjóð.

Það sem ég er reyndar ósáttastur við hjá hæstv. ríkisstjórn, það er reyndar margt sem ég er ósáttur við, það er tekjufærslan frá sveitarfélögunum til að rétta af ríkissjóð.

Þetta er eins og ef ég væri að rétta af heimili mitt og ég gæti alltaf farið og tekið peninga úr næsta húsi, frá næsta heimili, og það er mjög ósanngjarnt. Í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi ári er búið að taka 2,5 milljarða frá sveitarfélögunum inn í ríkissjóð og það er mjög ósanngjarnt vegna þess, og síðasti ræðumaður kom vel inn á það, að það er svo mikilvægt að hlúa að þeirri grunnþjónustu sem er rekin í sveitarfélögunum. Það er algert samspil þarna á milli. Þess vegna er ég líka mjög ósáttur við að ríkisstjórnin geri þetta án þess að bæta sveitarfélögunum það upp. Þetta er mjög ósanngjarnt og mjög óréttlátt.

Ég ætla svo sem ekki að dvelja lengi við þessa hókus-pókus aðferð sem ég kalla svo þar sem menn ætla að fara að taka skatttekjurnar af árunum 2013–2018, það var komið inn á það og við getum svo sem rætt það í löngu máli en ég sé ekki ástæðu til þess vegna þess að það er náttúrlega hluti af því samkomulagi sem er gert við stóriðjuna. Það er hins vegar ekki þannig að menn séu að taka skatttekjur af næsta kjörtímabili til að setja inn á þetta, en það lagar ekkert rekstur ríkissjóðs vegna þess að menn geta ekki minnkað hallann með þessu af því að þetta er bara streymi á peningum og síðan geta menn tekið það inn í efnahaginn en halli ríkissjóð er ekki lækkaður með þessu.

Það sem við þurfum að gera er að bæta við aflaheimildir til að skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Það er enginn vafi í mínum huga það er mjög skynsamlegt að gera það núna og það eru fullar forsendur til að gera það. Ég þekki það mjög vel persónulega vegna þess að ég er búinn að starfa alla mína ævi til sjós og lands í kringum sjávarútveg og það er algerlega borð fyrir báru. Allir sem starfa í þessari grein eru sammála um að hægt væri að bæta verulega við aflaheimildir og skapa þannig auknar tekjur.

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið efnislega yfir mjög margt í dag og mér fannst koma annar vinkill í umræðuna eftir að einn hv. stjórnarþingmaður tók þátt í henni. Ég fagna því að menn skuli nálgast málið með þessum hætti en ítreka það að ég lít á það sem ábyrga stjórnarandstöðu að leggja fram frekari niðurskurðartillögur en stjórnarflokkarnir gera og rétta út hönd til að koma mönnum til aðstoðar þar.

Loks langar mig líka að benda á eitt þegar menn eru að ná tökum á vandanum. Það sem gerðist þegar menn lögðu upp til að ná þessum halla til baka sem þeir ætla sér að gera, þá var lagt upp með það, og það er skrifað inn í stöðugleikasáttmálann, að 45% yrði útfært með skattahækkunum og 55% dregið saman í útgjöldum. Síðan er búið að raska þessum hlutföllum um 2% í aðra áttina, þ.e. það er búið að slaka á því þannig að hækka á skattana meira og draga minna úr útgjöldunum. Þessi tala lætur náttúrlega mjög lítið yfir sér en þessi 2% eru eigi að síður þannig að það er búið að taka 12 milljarða út úr því sem á að spara og færa yfir í skattahækkanir, sem segir kannski mikið um það sem við erum að vinna úr.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að við munum eiga fleiri svona orðaskipti á þinginu eins og við höfum átt síðasta klukkutímann eða svo og lýsi mig reiðubúinn til að aðstoða stjórnarmeirihlutann við að skera enn frekar niður og styðja þá í því en ekki garga á þá utan úr sal.