138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[19:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu í ljósi þeirra ummæla sem hér hafa fallið, m.a. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Vandinn er sá að úr því að notað er hugtakið auðlindaskattur þá er það svo, bæði innan hagfræðinnar og almennt í skilningi á því hugtaki, þ.e. auðlindaskattur, hvað það þýðir, að það er mjög afmarkað og liggur fyrir nákvæmlega hvað átt er fyrir með því hugtaki.

Frú forseti. Með því að samþykkja frumvarpið með þessari fyrirsögn og með þeirri hugsun sem hér er og þeim skilningi sem kemur fram hjá hv. þingmönnum, bæði í Samfylkingunni og Vinstri grænum, er verið að kollvarpa hugtakinu auðlindaskattur. Ég er ekki viss um að t.d. hv. þingmenn Samfylkingarinnar verði ánægðir með það að hægt sé að líta svo á að um sé að ræða auðlindaskatt ef skattlagning fer fram með þeim hætti sem hér er verið að leggja til, því að þar með er algerlega búið að breyta í grundvallaratriðum allri þeirri umræðu sem sá flokkur hefur staðið fyrir um auðlindaskatt. Ég er ekki viss um að það sé nægur skilningur í hópi ríkisstjórnarliðanna á málinu, því miður.