138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

vitamál.

74. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. samgn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa samgönguráðuneytis og fulltrúa úr ferðaþjónustu og auk þess aðila frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og frá Skeljungi.

Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er gerð tillaga um að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar og þróun gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum nr. 142/2002. Með frumvarpinu er lagt til að vitagjald verði 156,50 kr. á hvert brúttótonn sem er 100% hækkun í samræmi við þróun gengisbreytinga og hækkun neysluvísitölu. Vísitalan hefur hækkað um 39% frá 2002 til 2009 og evran um 100%. Hins vegar er lögð til í frumvarpinu sú breyting að vitagjaldið megi ekki einungis nota í verkefni skv. 2. gr. laga um vitamál heldur til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdir á hennar vegum.

Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að umrædd hækkun gæti haft alvarlegar afleiðingar, t.d. fækkun ferðamanna sem ferðast með skemmtiferðaskipum til landsins. Umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að hækkun gjaldsins væri tengd við þróun gengis evru og töldu að 100% hækkun gjaldsins eins og lagt hér er lagt til væri óviðunandi. Auk þess var gagnrýnt að heimiluð yrði nýting vitagjaldsins til almenns rekstrar Siglingastofnunar þar sem það væri ekki tilgangur gjaldsins, heldur væri það í eðli sínu þjónustugjald en ekki skattur.

Nefndin fjallaði um málið og fór yfir þau sjónarmið sem fram komu á fundum nefndarinnar. Var það mat nefndarinnar að þarna væri um að ræða eðlilega og nauðsynlega breytingu en að sama skapi var það mat nefndarinnar að rétt væri að takmarka hækkunina við 60% sem lætur nærri að sé hækkun neysluverðsvísitölu frá því að gjaldskránni var síðast breytt 30. september 2002 til dagsins í dag. Nefndin gerir því sérstaka breytingartillögu þess efnis. Auk þess áréttar nefndin mikilvægi þess að gjaldskrár séu uppfærðar reglulega í samræmi við verðlagsþróun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindri breytingu.