138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

fjarskipti.

57. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. samgn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn fulltrúa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Auk þess hafa komið á fund nefndarinnar fulltrúar frá Póst- og fjarskiptastofnun. Við höfum jafnframt fengið umsagnir frá Neytendasamtökunum, Símanum hf. og fleirum.

Tilgangur þessa frumvarps er tvíþættur, annars vegar að lækka álagningarprósentu (gjaldhlutfall) jöfnunargjalds í jöfnunarsjóð alþjónustu og hins vegar að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 544/2009 frá 18. júní 2009 um breytingar á reglugerð nr. 717/2007, um reiki í almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/21EB. Reikireglugerðin var formlega innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1046/2008 en tilgangur hennar er að ná fram öflugri neytendavernd og um leið að tryggja að samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta og að smásöluverð fyrir reikiþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins endurspegli á sanngjarnan hátt undirliggjandi kostnað sem felst í að veita þessa þjónustu.

Fram kom á fundi nefndarinnar með hagsmunaaðilum nauðsyn þess að innleiða breytingar á reikireglugerðinni sem fyrst. Boðaðar breytingar eru til þess fallnar að efla neytendavernd og styrkja réttarstöðu neytenda gagnvart fjarskiptafyrirtækjum með margvíslegum hætti. Með þessum breytingum geta farsímafyrirtæki fengið reikiþjónustu á EES-svæðinu á betri kjörum sem leiðir til lækkaðs kostnaðar fyrir neytendur á ferðum erlendis, en þekkt vandamál er að háir reikningar hafa komið til eftir símnotkun erlendis. Nefndin telur boðaðar breytingar til bóta þar sem þær munu styrkja stöðu neytenda á fjarskiptamarkaði meðal annars í formi hagstæðari kjara.

Nefndin fjallaði einnig um tillögu um lækkun á álagningarprósentu jöfnunargjalds í jöfnunarsjóð alþjónustu. Fram kom á fundi nefndarinnar að álagningarprósentan hefði verið hækkuð úr 0,12% í 0,65% með lögum nr. 143/2007, sem gert var til mæta útgjaldaaukningu sem varð þegar úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úrskurðaði Símanum hf. ákveðið framlag úr sjóðnum vegna hluta af kostnaði fyrirtækisins við uppbyggingu gagnaflutningsþjónustu. Nú er svo komið að ekki hefur verið sótt um meiri framlög úr sjóðnum. Nefndin telur því eðlilegt að lækka álagningarprósentuna eins og gerð er tillaga um í frumvarpinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.