138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

59. mál
[21:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Þeir sem eru með þessi svokölluðu frístundaskip stunda sjóstangaveiði og gera út víða um land. Þannig hefur því verið hagað hingað til að þetta eru mikið erlendir aðilar sem koma um borð í þessi skip og sumir hafa hugsanlega ekki réttindi til að stjórna þeim. Þá er annaðhvort að skylda alla til að hafa svokölluð 15 tonna réttindi eða 15 metra réttindi eða hafa engar kvaðir, af því að það er mismunandi á milli landa hvort menn geta fengið svona sportveiðiskírteini og frístundaskipaskírteini þar sem þau eru þá gild. Það sem er áætlað að gera hér og útfæra frekar í reglugerð er að samgönguráðuneytið og Siglingastofnun útfæri hver af þessum réttindum uppfylli þessi skilyrði og síðan verði gerð skilyrði til þess að eigendur þessara fyrirtækja sjái til þess að þeir aðilar hafi tilskilin réttindi til þess að stunda þessar veiðar.

Ekki komu margar athugasemdir við þetta frumvarp nema að því leyti að menn vildu skilgreina frekar stærðarmörk frístundaskips, því að í frumvarpinu er ekki talað um nein stærðarmörk. Tilmæli nefndarinnar eru, af því að það stendur til að setja reglugerð sem er vísað til í frumvarpinu, að hæstv. samgönguráðherra útfæri þau með viðeigandi hætti þannig að einhver stærðarmörk séu á frístundaskipum. Eins er því beint til hæstv. samgönguráðherra að tilgreint verði frekar orðið „frístundaskip“ og hvað það þýðir í raun og veru .

Virðulegi forseti. Ég tel þetta vera mikilvægt skref í átt að frekara öryggi til sjávarins.