138. löggjafarþing — 53. fundur,  19. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[11:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér erum við að afgreiða frumvarp um svokallaða umhverfis- og auðlindaskatta, frumvarp sem er aðför að ferðaþjónustunni í landinu undir forustu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, frumvarp sem mun skerða lífskjör almennings, sérstaklega á landsbyggðinni. Hér er um að ræða landsbyggðarskatt sem mun hækka vöruverð á landsbyggðinni þvert á gefin loforð í aðdraganda síðustu kosninga. Það virðist ekki neitt vera að marka það sem ríkisstjórnin lofaði almenningi fyrir síðustu kosningar, það er allt svikið og fyrir utan það er þetta frumvarp hrikalega illa unnið. Það hefur ekki verið staðið eins illa að breytingum á skattalögum á Alþingi Íslendinga á seinni árum. Þessi vinnubrögð eru óboðleg íslenskri þjóð og þess vegna höfum við farið fram á það í stjórnarandstöðunni að því verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til betri úrvinnslu í þágu íslensks almennings.