138. löggjafarþing — 53. fundur,  19. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[11:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frumvarp um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem var unnið í góðri samvinnu innan nefndarinnar. Við fórum fram á að á milli umræðna yrði síðan skoðuð sérstaklega staða Lánasjóðs sveitarfélaga en þar mun gjaldið hækka verulega, rúmlega tvöfaldast án þess að nein efnisleg rök séu fyrir því.

Það er niðurstaða minni hlutans sem undir álit þetta skrifar að hægt hefði verið að samræma betur reglur, hafa svipaðar reglur um þennan lánasjóð og Íbúðalánasjóð ef vilji hefði verið fyrir hendi. Sá vilji var ekki fyrir hendi og þess vegna erum við með sérstakt framhaldsnefndarálit en munum samt sem áður styðja málið.