138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur áður komið fram hjá mér að ég tel hugmyndir um skattlagningu séreignarsparnaðar koma vel til greina og þær geti vel orðið hluti af þessu stóra verkefni, en það hefur jafnframt komið fram að ég tel að þær firri okkur ekki því að þurfa að taka á sjálfum undirstöðunum í tekjuöfluninni til að tryggja tekjur ríkissjóðs til lengri tíma. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að hvað viðkvæmast í þessu eru auðvitað neysluskattarnir og því höfum við lagt áherslu á að reyna að stilla hækkunum þeirra sem allra mest í hóf til að halda niðri vísitöluáhrifum, og ég held að í ljósi þess gríðarlega bils sem þarf að brúa séu þær breytingar sem hér eru lagðar til eins hóflegar og vænta mætti eftir algert hrun eins og hér er orðið. Það er líka kannski ekki síst ástæða til að horfa til og hlífa eins og frekast er kostur tekjuskatti einstaklinganna vegna þess að það er hann sem skiptir fólkið, almenning sjálfan, hvað mestu máli en ástæða er um leið til að hafa ákveðnar áhyggjur af því í neyslusköttunum að ef of langt er gengið í þeim verði það til að auka á samdrátt í hagkerfinu og hafa neikvæð áhrif með þeim hætti. Þess vegna er full ástæða til að hlýða á öll varnaðarorð í þeim efnum. En ég ítreka bara að í ljósi þeirra aðstæðna sem við erum í tel ég að hér sé um að ræða ráðstafanir sem telja verði eðlilegar.