138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er þannig að við höfum fjallað um þær hugmyndir í hv. efnahags- og skattanefnd og munum eflaust halda áfram að gera það. Margt í þeim hugmyndum hefur hlotið þar ágætlega jákvæðar undirtektir. Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að verið er að auka álögur á almenning í ýmsum gjöldum sem hér um ræðir. Það væri auðvitað líka, og ég hygg að hv. þingmaður geti verið mér sammála um það, býsna mikið óraunsæi að ætla að við förum í gegnum hrun og tökum á stærsta halla í rekstri ríkissjóðs fyrr og síðar án þess að það þurfi að koma til þeirra að einhverju marki, en það skiptir máli að stilla þeim í hóf eins og unnt er og ég hygg að hv. þingmaður sjái kannski best áherslurnar í því í tekjuskattsfrumvarpinu þar sem tekjum undir 200 þús. kr. er algjörlega hlíft. En auðvitað er það rétt, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmanni og ýmsum öðrum hér í umræðunni, að mikilvægt er að gæta hófs í þessu. Það að atvinnulífið tekur svona myndarlegan þátt í því að greiða í raun og veru skattahækkanirnar í gegnum tryggingagjöldin, í gegnum auðlindagjöldin o.s.frv., dregur auðvitað mjög úr þörfinni fyrir hækkanir á virðisaukaskatti og á tekjusköttum eins og núna er.