138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður með að þingmaðurinn er ánægð með að við höldum áfram málefnalegri umfjöllun um tillögur í skattamálum í efnahags- og skattanefnd hvort sem þær koma frá minni hluta eða meiri hluta. Ég held að það sé mikilvægt í nefndarstarfi í þinginu að við horfum til tillagna hvaðan sem þær koma og fjöllum um þær með málefnalegum hætti og séum opin fyrir því að taka tillit til góðra breytinga eins og við gerðum ágætlega í gær þegar við samþykktum tvær breytingartillögur minni hlutans við nýsköpunarmálin sem hér hefur verið ákaflega góð samstaða um.

Hvað varðar áhrifin á landsbyggðina eru þau auðvitað umtalsverð eins og á landið allt. En sérstök úttekt þar að lútandi hefur ekki farið fram þó að menn geti lagt mat á það með hvaða hætti ólík gjöld leggjast á ólíka landshluta og (Forseti hringir.) það er auðvitað rétt sem þingmaðurinn nefnir í því sambandi hvað varðar bensíngjaldið.