138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði 50 þús. kr. áðan en þetta eru 15 þús. kr., ég er búin að finna þetta núna í frumvarpinu, ég mundi það rétt og sagði það í upphafi. Ég vil benda hv. þm. Helga Hjörvar á að 15 þús. kr. er heilmikill peningur fyrir fólk sem ekki á hann til. Vissulega er verið að skerða réttindi þeirra sem ekki hafa mikið á milli handanna með því að hækka þetta í þessa upphæð. Þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar en við megum ekki búa í þannig landi að ekki hafi allir aðgang að dómstólunum, því að þetta er eins og ég segi vissulega há upphæð fyrir þá sem eiga um sárt að binda og þurfa að sækja rétt sinn og geta það jafnvel ekki út af því að verið er að þrengja aðgengi að dómstólunum. Þetta þurfum við að athuga. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það verður mikið álag á dómstólunum í framtíðinni en það má ekki vera með þeim hætti að fólk geti ekki (Forseti hringir.) leitað réttar síns vegna kostnaðar.