138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það sérstaklega fram og það stendur í nefndarálitinu að við föllumst á tvennt: Annars vegar föllumst við á — og það var eiginlega krafa okkar — að skattkerfið verði óbreytt í tveim þrepum og við töldum það kost, það stendur í nefndarálitinu að það sé kostur við þetta kerfi. Þessari breytingu fylgja kostir en einnig miklir gallar. Einn kostur er sá að ekki er um kerfisbreytingu að ræða, það er kostur. Auk þess tölum við líka um og tókum undir að gjöld sem hafa verið óbreytt um árabil séu hækkuð, við tókum það sérstaklega fram þannig að þetta er ekki algjörlega neikvætt.

Það sem við töldum vera neikvætt er að efra þrepið skuli hafa verið hækkað og þá eingöngu vegna þeirrar hugsunar að það getur vel verið að við séum komin yfir hámarkið í Laffer-kúrfunni, þ.e. að sérhver hækkun á skattprósentu valdi tekjulækkun vegna þess að skattstofninn dregst saman. Þetta er mjög þekkt og má eiginlega segja að skattalækkanir fyrri ára hjá Sjálfstæðisflokknum hafi einmitt sýnt þetta vegna þess að við skattalækkanirnar jukust skattstofnarnir þvílíkt að tekjur ríkissjóðs, bæði af sköttum á almenning og á hagnað fyrirtækja og vexti og fjármagnstekjur, stórjukust þó að skattprósentan hafi verið lækkuð, sem sýnir það einmitt að Laffer-kúrfan virkar. Meira að segja laun Íslendinga hækkuðu þessi tólf ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn sem hvergi annars staðar í heiminum og hefur lítið verið talað um það og hrunið hefur ekki einu sinni náð niður þeirri launahækkun sem varð hér á landi sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum sem margir voru með mjög lág laun þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við.

Það er því ekki rétt hjá hv. þingmanni að við tökum ekki undir eitt og annað í þessu. Ég hefði viljað sjá, og við bendum á það hérna, að menn hefðu heldur hækkað lægra þrepið.