138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði einmitt það sem ég hafði verið að segja, þ.e. að hækkun á virðisaukaskattinum um eitt prósent gefur ríkissjóði jafnvel ekki neitt, vegna þess að eftirspurn mun minnka.

Síðan segir hún að það sé jákvætt að leysa upp séreignarsparnaðinn. Mér finnst það ekki jákvætt, frú forseti. Séreignarsparnaðurinn er eitt af þeim sparnaðarformum sem allt of lítið er til af á Íslandi, íslensk heimili eru allt, allt of skuldsett. Þau ættu að eiga meiri sparnað og hér er kerfisbundið verið að leysa hann upp til þess að mæta ákveðnum erfiðleikum sem heimilin eiga fyrir. Það hefði verið miklu betra að hækka skattana ekkert eins og sjálfstæðismenn gerðu ráð fyrir. Það hefði valdið eftirspurn í þjóðfélaginu sem hefði skapað atvinnu. Við lögðum til að skattleggja séreignarsparnaðinn allan inni í sjóðunum sjálfum án þess að hann væri leystur upp, án þess að sparnaður almennings væri minnkaður. Þá hefði losnað um 110 milljarða með þeim hætti vegna þess að skuldabréfin sem sjóðirnir gáfu út áttu að vera framseljanleg og seljanleg fyrir sveitarfélög og ríki og sveitarfélög og ríki hefðu getað beitt þeim tækjum til þess að örva eftirspurn í hagkerfinu sem ekki veitir af nú sem stendur.

Ég tel að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin er að gera og alveg sérstaklega þetta síðasta upphlaup með hækkun úr 24,5 upp í 25 og síðan í 25,5 sé afskaplega misráðið. Ég hef grun um að tekjur ríkissjóðs muni lækka við þá aðgerð.