138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í þessum töluðu orðum er enn verið að halda fund í fjárlaganefnd út af Icesave. Þetta er í þriðja skipti á örfáum dögum þar sem þingsköp eru brotin. Það var ekki búið að gefa leyfi fyrir þeim fundi á þingfundatíma. Í gær reyndi allsherjarnefnd að halda fund með svipuðum hætti og fyrir örfáum dögum var fundur í efnahags- og skattanefnd á meðan þingfundur stóð. Ekki er hægt að ætlast til að virðing Alþingis aukist mikið á meðan Alþingi sjálft fer ekki eftir eigin lögum. Mér ber að vera með framsögu á minnihlutanefndaráliti núna í upphafi fundar og mér ber líka að vera á fundi í fjárlaganefnd til að ræða Icesave. Ég óska eftir leiðbeiningu frá forseta með það hvar í rauninni ég á að vera samkvæmt þingsköpum og hvernig ég á að fara að því sem og aðrir þingmenn að sinna starfi mínu.