138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson og hv. þm. Þór Saari hafa sagt hérna um fundarstjórn forseta. Það er sérstaklega bagalegt að þessar tvær nefndir, annars vegar fjárlaganefnd og hins vegar og efnahags- og skattanefnd, hafi verið að funda á meðan á þingfundum hefur staðið. Og þetta er sérstaklega bagalegt ef við horfum t.d. á það mál sem við erum að ræða núna, sem eru skattamálin, ég hefði talið að fulltrúar í fjárlaganefnd hefðu áhuga á að vita hvernig tekjuhliðinni verður háttað í fjárlögunum og sama á við um efnahags- og skattanefnd, að fá að fylgjast með þeirri umræðu í þinginu. Þetta eru stór mál. Þó að Icesave-málið sé stórt og skipti okkur geysilega miklu máli hlýtur að vera hægt að skipuleggja vinnuna á þinginu þannig að þingmenn geti uppfyllt skyldur sínar sem eru að sitja hér og fylgjast með þingfundum. Ég hvet frú forseta til að fresta þingfundi tafarlaust þar til fundi í fjárlaganefnd lýkur og að það sé a.m.k. leitað eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna um það ef halda á fundi í þingnefndum á meðan á þingfundi stendur.