138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta svigrúm hjá bönkunum hefur alltaf verið til staðar og það hefur verið staðfest. Hv. stjórnarliðar, að undanskilinni hv. þm. Lilju Mósesdóttur, hafa mótmælt þessari alhæfingu okkar þegar við höfum talað um að það sé svigrúm til að ráðast í almennar höfuðstólslækkanir vegna lána heimilanna. Hvað er verið að gera hér þess í stað, þveröfugt? Verið er að leggja til auknar álögur og aukna skatta sem leiða til hækkunar á höfuðstóli lána íslenskra heimila sem mörg hver eru því miður yfirskuldsett.

Ég spurði hv. þingmann einnar spurningar en hv. þingmaður kom ekki inn á það, þ.e. hvort hv. þingmaður væri til í að styðja breytingartillögu ef hún kæmi fram um að hækka gjafsóknarsjóðinn í ljósi þess að verið er að hækka gjöld í dómstólakerfinu, þannig að fleiri sem hafa ekki mikil fjárráð geti leitað á náðir dómstólanna en þeim verði ekki synjað sökum þess að þeir hafi ekki efni á því.