138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Ég mun ekki styðja slíka tillögu hvað varðar núverandi fjárlagaár, enda er ekki gert ráð fyrir því á hinum erfiðu fjárlögum sem við erum nú að samþykkja, en ég gæti alveg hugsað mér að taka þátt í því með hv. þingmanni að kanna hvort við gætum gert það fyrir árið 2011.

Hvað varðar höfuðstólslækkanir bankanna er það svo að þeir bjóða nú höfuðstólslækkanir sem gefa bankanum sama núvirði í greiðslum. En heimilunum er boðið þess í stað að taka óverðtryggða vexti, fasta til þriggja ára en síðan tekur óvissan við. Ég ætla að vara hv. þingmann við því að lýsa þessu sem einhverri einfaldri lausn því þarna er um flókið mat að ræða sem hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig og gefa sér það þá að vextir verði hagstæðir að þremur árum liðnum. Þetta getur verið mikill bjarnargreiði við íslensk heimili.