138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessar aðgerðir eru ekki langtímaaðgerðir, sagði hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Ég get tekið undir það. Það er algjör skortur á framtíðarsýn, algjör. Ég spyr hv. þingmann hvað hafi orðið af þeirri hugmynd sem hv. þingmaður hafði í haust og hugmynd sem ég hafði líka í haust, að við mundum setjast yfir vanda heimilanna, þverpólitískur hópur, til að fara yfir og gera tillögur um það með hvaða hætti mætti koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki, aðallega heimilin. Hvað hefur orðið af þeim hugmyndum sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kastaði fram og við í stjórnarandstöðunni tókum fagnandi á móti? Hefur ríkisstjórnin viljað ráðast í þá vinnu með minni hlutanum í þinginu? Ég hef ekki orðið var við það að þessi hópur hafi verið skipaður.