138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að viðskiptanefnd ætli að taka verðtrygginguna upp á sína arma. Ég vil benda á, svo við gætum allrar sanngirni í þessari umræðu, að það er eftir mjög mikla baráttu og skeleggan málflutning hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem þetta mál er komið á þennan rekspöl. Við skulum halda því til haga í þessari umræðu, vegna þess að hv. þingmaður hefur lagt fram þingmál er snertir afnám verðtryggingar í áföngum, sem allur þingflokkur Framsóknarflokksins er á. Við lögðum höfuðáherslu á það á lokadögum þingsins að þetta mál fengi veglegan framgang á vettvangi Alþingis Íslendinga og þetta er afleiðing þeirrar baráttu. Ég vonast til þess að niðurstaða úr nefndarvinnunni verði á þá leið að heimilin njóti þess í framtíðinni að búa við það að skuldir þeirra verði ekki verðtryggðar og hækki sjálfkrafa um leið og gjöld hins opinbera eru hækkuð.