138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í neinni mótsögn við sjálfan mig. Þetta er mjög einfalt. Hér kemur hv. þm. Helgi Hjörvar með aðra útreikninga en allir aðrir varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn. Það hefur ekkert verið skoðað. Hæstv. ríkisstjórn fór ekki í þá vinnu og þetta hefur ekki verið skoðað í nefndum þingsins. Þetta veit hv. þingmaður þannig að það dugar lítt að slá fram einhverjum fullyrðingum. Að sjálfsögðu mundi nást pólitísk sátt um þetta ef menn settust yfir þennan þátt málsins.

Varðandi afstöðu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þá nota þeir núna tækifærið við þessar aðstæður bæði til að breyta sögunni, búa til nýja söguskoðun, og koma hlutum sem þeir þorðu ekki að segja við kjósendur en eru þeirra hugðarefni — það hefur verið hugðarefni vinstri manna því alltaf hafa þeir hækkað skatta þegar þeir hafa haft tækifæri til. Hv. þingmaður þekkir vel úr tíð R-listans að menn hækkuðu skatta ef þeir mögulega gátu. Það varð ekki til þess að ná neinum meintum jöfnuði, þetta snýst ekki um það. Það er ekkert réttlæti í þessu nýja skattkerfi. Það er ekkert réttlæti í því að hjón með sömu laun borgi sitt hvora skattprósentuna. Við erum með stighækkandi tekjuskatt eins og hv. þingmaður nefndi. Ef menn vilja eiga eitthvað við það þá er það hægt en að búa til þetta flókna skattkerfi, fara úr staðgreiðslukerfinu sem við þurftum áratugi til að koma okkur í og gera þetta einfalt fyrir almenning — (Forseti hringir.) þetta hefur ekkert með réttlæti að gera, félagslegan jöfnuð eða hvaða hugtök sem menn nota. Þetta er bara vegna þess að (Forseti hringir.) vinstri menn vilja hækka skatta.