138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu er verið að leggja á aukna skatta, það fer ekki á milli mála og á ekki að gera, þó að í frumvarpinu sé reynt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Það frumvarp sem lá fyrir og var rætt fyrr í dag, sem sneri að auðlindaskatti og umhverfisskatti, var frumvarp með rangnefni og ég held að þeir sem hafi skoðað það mál ofan í kjölinn hafi auðvitað áttað sig á því. En virða verður það ríkisstjórninni til vorkunnar að það var of mikil freisting fyrir hæstv. ríkisstjórn að neyta ekki þeirra spunabragða sem voru möguleg og felast í því að kalla hlutina röngum nöfnum og gefa í skyn að það séu einhverjir aðrir að borga skattana en almenningur. Þannig var það ekki í því frumvarpi sem var lagt fram og að sjálfsögðu er það ekki í frumvarpinu sem nú er til umræðu, um hækkun á virðisaukaskatti og öðrum gjöldum. Auðvitað er það almenningur á Íslandi, heimilin, launamennirnir, sem borga þennan skatt. Reyndar, frú forseti, ekki bara launamennirnir, þessi skattur leggst líka á þá sem eru án atvinnu vegna þess að hér er um að ræða hækkun á virðisaukaskatti og þótt lítil sé vinnan þurfa menn að halda áfram að kaupa vöru og þjónustu. Þetta gerir öllum erfiðara fyrir.

Vandinn er sá, frú forseti, í þessu máli, eins og því skattafrumvarpi sem við ræddum fyrr í dag, að með því að hækka skatta við þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi, með því að hækka skatta á fjölskyldur, með því að hækka skattana á neytendur í landinu erum við að taka þá áhættuna að það dragi úr eftirspurn. Það má ekki gerast við þessar aðstæður. Það má ekki grípa til aðgerða í ríkisfjármálunum sem draga úr eftirspurn.

Frú forseti. Hvað þýðir samdráttur í eftirspurn? Samdráttur í eftirspurn þýðir einfaldlega að færri hafa af því atvinnu að þjónusta, búa til eða framleiða vöru. Það er lögmál hlutanna. Engum manni dettur í hug að mæla á móti því.

Hitt er auðvitað alveg ljóst að ríkissjóður Íslands stendur mjög höllum fæti og við því þarf að bregðast. Þess vegna hafa komið fram hugmyndir, m.a. hjá okkur sjálfstæðismönnum og fleirum, um það hvernig eigi að bregðast við svo ekki sé gripið til skattahækkana við þær aðstæður þar sem orðið hefur hrun á fjármálamarkaði og hefur kallað samdrátt yfir þjóðarbúið, þar sem draga þarf úr ríkisútgjöldum sem kallar á enn meiri samdrátt. Við slíkar aðstæður megum við ekki gera slíkt, þ.e. að hækka skatta. Og við þetta bætist að vegna hruns myntarinnar hafa útgjöld heimilanna, fjármögnunarkostnaður heimilanna, vaxið alveg gríðarlega. Þegar menn eru búnir að borga af lánunum sínum og standa frammi fyrir minni tekjum er auðvitað minna eftir í buddunni til að kaupa vöru og þjónustu. En þá ætlar ríkisstjórnin, frú forseti, við slíkar aðstæður að hækka verð á vöru og þjónustu.

Það sem ég hef kallað ítrekað eftir úr þessum ræðustól er að menn taki nú höndum saman og ræði í alvöru þær leiðir sem hafa verið settar upp fyrir ríkisstjórnina af hálfu stjórnarandstöðunnar og sjái hvort ekki sé hægt að ná einhverri samstöðu um að finna aðra leið en þá sem ríkisstjórnin er að fara, í það minnsta, frú forseti, að reyna að draga úr skattahækkunum ef ríkisstjórnin fæst ekki til annars.

Ég held, frú forseti, þegar menn horfa t.d. á það frumvarp sem nú liggur fyrir og sjá hversu hratt þar hefur verið unnið og hversu lítinn tíma menn hafa haft í þinginu til að fara yfir málið, sé augljóst að villuhætturnar eru miklar. Það er augljóst líka í því frumvarpi sem við höfum nú þegar rætt sem snýr að auðlindaskatti og umhverfisgjöldum, þar sem meira að segja fólst villa í fyrirsögn frumvarpsins, að skynsamlegt hefði verið að taka lengri tíma í að endurskoða skattkerfið. Ég tala nú ekki um þegar við horfum fram á það mál sem verður til umræðu síðar í dag, um tekjuskattinn.

Það sem við hefðum átt að gera, frú forseti, og hefði verið skynsamlegt að gera við þessar aðstæður, var að fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til, þ.e. að flýta eins og kostur væri öllum framkvæmdum í takti við það samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins og kennt er við stöðugleika, og mun nú sennilega vera notað sem einhvers konar samheitaorð yfir það þegar menn standa ekki við samkomulög. Ef menn stæðu við það, ryddu úr vegi öllum þeim hindrunum sem eru fyrir fjárfestingu t.d. í Helguvík, flettu til baka því rugli sem leiddi til þess að framkvæmdir voru stöðvaðar á Bakka og menn sæju hvaða tekjur slíkar framkvæmdir hefðu strax skilað inn í íslenskt þjóðarbú og til ríkissjóðs, legðu það saman við þær tekjur sem við getum fengið úr þeim aðgerðum sem við höfum bent á sem hægt er að grípa til varðandi séreignarsparnaðinn, með því að hækka eilítið kvótana fyrir bolfiskinn, með því að við förum í minni fjármögnun af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en talið var nauðsynlegt í upphafi — með öllum þessum aðgerðum hefðum við getað búið til lausn fyrir næstu tvö árin eða svo fyrir ríkissjóð á meðan skattstofnarnir væru að vaxa aftur upp meðan við erum að ná okkur upp úr þessu. Menn hefðu getað notað tímann ef pólitískur vilji væri fyrir því meðal ríkisstjórnarflokkanna til að endurskoða skattkerfið ef mönnum fyndist það ekki nægilega réttlátt eða vildu sjá það einhvern veginn öðruvísi. Gott og vel. En menn tækju sér þá tíma til að gera það og vinna það yfirvegað og skynsamlega, þannig að menn nái þeim markmiðum sem þeir setja sér.

Við sjálfstæðismenn gerum mjög miklar athugasemdir við þetta. Við höfum bent á að þau vinnubrögð sem nú tíðkast og sú stefnumótun, sú efnahagsstefna sem felst í skattatillögum ríkisstjórnarinnar býr til þá hættu í efnahagslífinu að kreppan verði ekki bara alvarleg heldur stóralvarleg, dýpki og lengist. Ég hef ítrekað bent mönnum á það, hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, hvernig hlutirnir æxluðust í Bandaríkjunum eftir hrunið þar. Það þurfti einmitt aðgerðir bandarísku ríkisstjórnarinnar og bandaríska seðlabankans til að gera kreppuna að kreppunni miklu.

Skattahækkanir ofan í þá stöðu sem við stöndum núna frammi fyrir munu dýpka kreppuna og gera hana erfiðari. Við höfum varað við þessu, við sjálfstæðismenn, aftur og aftur og undir þær viðvaranir hafa framsóknarmenn tekið og fulltrúar Hreyfingarinnar. Ríkisstjórnin getur ekki sagt að hún hafi ekki verið vöruð við og ríkisstjórnin getur heldur ekki sagt að engir aðrir möguleikar hafi legið á borðinu. Þeir eru til staðar, útreiknaðir og útfærðir. Ég leyfi mér að fullyrða að við vorum tilbúin með þessar lausnir löngu áður en ríkisstjórnin fór að koma með sín mál inn í þingið, sem lýsa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Það er þetta sem mér þykir sorglegt, frú forseti, að hafi brugðist svo mjög hjá ríkisstjórninni og ég tel ábyrgð hennar mjög mikla í þessu máli.