138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma í andsvar við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég ætla fyrst að þakka henni fyrir hlý orð í garð tillagna okkar sjálfstæðismanna og ánægjulegt að finna þann stuðning sem sú tillaga hefur fengið.

Það var eitt atriði í máli hv. þingmanns sem mér fannst athyglisvert og tel rétt að tjá mig um sérstaklega vegna þess að það hefur fengið mjög litla umfjöllun hér, þ.e. hækkun dómsmálagjaldanna. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á þeirri stórfelldu hækkun sem þar er um að ræða. Það er vissulega rétt að ýmis af þeim gjöldum hafa ekki hækkað um langa hríð, það kunna því að vera rök fyrir einhverri hækkun, en hér er um gríðarlega mikla hækkun að ræða. Það getur komið niður á þeim sem þurfa að leita til dómstóla, t.d. hækkun á gjaldi vegna útgáfu stefnu kemur við mjög marga, ekki bara þá sem leggja fram stefnuna, því að hér er um að ræða kostnað sem oftar en ekki lendir á þeim sem stefnunni er beint gegn og í mjög stórum hluta mála er um að ræða einhvers konar skuldamál þar sem sá kostnaður leggst á endanum á skuldarann. Þó að sumir leggi út fyrir gjöldunum, eins og dómsmálagjöldum almennt, eru það aðrir sem greiða. Þarna er því um það að ræða í mjög mörgum tilvikum að verið er að bæta á skuldabagga þeirra sem höllum fæti standa og geta ekki staðið í skilum. Ég held að mér sé óhætt að segja að mikill yfirgnæfandi (Forseti hringir.) meiri hluti þeirra mála sem fara fyrir dómstóla og stefna er gefin út í eru mál af því tagi. (Forseti hringir.) Þetta er því þáttur sem er vert að veita athygli í þessu sambandi.