138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ein stórfelld kjaraskerðing, segir hv. þm. Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hverja? Til hvers erum við að hækka skatta? Til hvers erum við að afla meiri fjármuna í ríkissjóð? Við erum að gera það til að komast hjá því að draga úr útgjöldum til almannatrygginga, til Landspítalans og skólanna í landinu. Til þess er leikurinn gerður. Er það rétt sem hér hefur verið haldið fram við umræðuna að þessar breytingar komi til með að auka álögur á bíleigendur, á umferðina, á þá sem — nú næstum því hætti ég við að segja það sem ég ætlaði að segja — neyta áfengis?

Þetta eru þær breytingar sem við leggjum til, hækkun á virðisaukaskatti, hækkun á olíugjaldi, bensíngjaldi og bifreiðagjaldi, hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi. Ætlun okkar hafði verið að innleiða þrjú þrep í virðisauka en það var fallið frá því. Hvers vegna gerðum við það? Við féllum frá því vegna þess að við fengum ábendingar frá svo mörgum hagsmunaaðilum, bæði innan stjórnsýslunnar, innan skattkerfisins af hálfu þeirra sem eiga að útfæra þessar tillögur og lagabreytingar og einnig hinna sem þurfa að greiða þessi gjöld, t.d. í veitingarekstri, hótelrekstri o.s.frv. Við hlustuðum á þessar ábendingar og ákváðum að falla frá þessum áformum. Við höldum okkur við 7% virðisaukaþrep en hækkum efsta þrepið úr 24,5%, eins og það hefur verið núna, í 25,5%. Eykur það álögur á þá sem verða fyrir því? Já, að sjálfsögðu. Þetta er spurning um að reyna að finna hinn gullna milliveg.

Við horfum fram á að hallinn á fjárlögum á þessu ári verði 160 milljarðar kr. og á næsta ári verði hann um 100 milljarðar kr. Við reynum hins vegar að brúa bilið með aukinni skattheimtu og niðurskurði. Ég held að vel hafi tekist til við að finna þennan gullna milliveg þó að það sé allt hárrétt sem hér hefur verið sagt um að þetta sé íþyngjandi fyrir bílaumferðina, fyrir tóbaks- og áfengisneytandann og fyrir þá sem þurfa að greiða hærri virðisaukaskatt í efra þrepi. En við reynum þó að halda utan um hina sem kaupa matvöruna og aðrar nauðsynjar sem haldið er í lægra virðisaukaskattþrepinu.

Tillögur sjálfstæðismanna hafa gengið út á að skattleggja lífeyrissparnaðinn, séreignarsparnað. Það er hugsun sem ég fyrir mitt leyti hef aldrei slegið út af borðinu sem nauðvörn — en sem nauðvörn vegna þess að þetta er eiginlega fyrirframtaka í skatti. Við erum að taka skatt sem ella kæmi til álagningar síðar meir. Lífeyriskerfið er þannig hannað að iðgjöldin í lífeyrissjóði eru án skattlagningar en síðan er fólk skattlagt þegar það fær greitt úr lífeyrissjóðunum. Hugsunin þarna hjá sjálfstæðismönnum er að skattleggja séreignarsparnaðinn núna og fá þannig umtalsverðar tekjur í ríkissjóð og komast hjá því að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki með þá von í brjósti að þetta muni efla atvinnustarfsemina og koma hjólum atvinnulífsins til að snúast hraðar þannig að við komumst fyrr út úr vandanum. Ég skil þessa röksemdafærslu mjög vel en hef áhyggjur af því að á okkur komi til með að hvíla þungar skuldbindingar á þessum árum sem ella kæmu til skattlagningar. Svo má ekki gleyma hinu að lífaldur þjóðarinnar lengist og þessar lífeyrisskuldbindingar verða þyngri, það verða hlutfallslega færri einstaklingar í vinnu til að framfleyta hinum sem eru komnir úr vinnu. Ég sé ákveðna annmarka á þessu af þeim sökum, auk þess sem við hljótum að hlusta á þá fulltrúa sem standa vörð um lífeyrissjóðina, bæði fulltrúa lífeyriskerfisins sjálfs og hagsmunaaðila á vinnumarkaði sem leggjast mjög eindregið gegn þessu.

Ein ráðstöfunin sem við grípum til er að framlengja heimildir til að taka séreignarsparnað út úr lífeyrissjóðunum. Ég tel þetta vera mjög til góðs. Fólk hefur gert þetta í umtalsverðum mæli, svo miklum reyndar að framhald á þessu er talið gefa okkur um 5 milljarða í skatttekjur. Ég held að þeir sem nýta sér þessar heimildir geri það af tveimur ástæðum að uppistöðu til. Annars vegar er það fólk sem er með mjög skuldsett íbúðarhúsnæði og notar þessa fjármuni til þess að fleyta sér áfram. Í annan stað er þetta fólk sem ræðst í minni háttar viðhald, framkvæmdir og fjárfestingar og ég tel að þessar fjárfestingar, þótt í smáum stíl séu, örvi hjól atvinnulífsins. Ég get talað af eigin reynslu af að hafa tekið út slíkan sparnað til þess að setja í smáframkvæmd, sumarbústað. Í hvað voru þessir peningar notaðir? Jú, til að borga fyrir jarðvegsvinnu, fyrir pípulagnir, fyrir smíðavinnu í Reykjavík og úti á landi. Þetta eru litlar fjárfestingar en þær skila sér til þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Við skulum því ekki vanmeta þennan þátt. Ég tel að hann sé mjög til góðs.