138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki alls kostar rétt að við gerum ekki grein fyrir áhrifum á verðlagsþróunina sem þessar skattbreytingar hafa í för með sér. Það er tíundað í nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Þar er gerð grein fyrir því hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa á vísitöluna.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að samspilið á milli verðhækkana almennt og lánskjara er áhyggjuefni. Ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að taka verðtryggingu lána til endurskoðunar. Ég hef reyndar alltaf verið á því að það sem á endanum skiptir höfuðmáli fyrir einstaklinginn er hver raunávöxtunin er hvaða nafni sem hún nefnist, hvort sem það er verðtrygging plús vextir eða bara vextir (PHB: Eða Icesave?) Vextirnir geta verið háir þó að verðtrygging sé ekki inni í þessu. Könnun sem var gerð á sínum tíma af hálfu viðskiptaráðuneytisins sýndi fram á að óverðtryggð lán voru að jafnaði með hærri vexti en verðtryggð lán, enda liggur það í augum uppi að ef lánveitandinn hefur tryggingu fyrir sínum fjármunum getur hann leyft sér lægri vexti. Á hinn bóginn hefur verðtryggingin orðið til þess að hækka lánasummuna í heild sinni þegar upp er staðið þótt vextirnir á hverjum tíma kunni að vera lægri en ella. Þetta er mótsögnin sem fólgin er í þessu kerfi, en ég er alveg inni á því að við þurfum að taka verðtrygginguna til skoðunar. (Forseti hringir.) Það er óeðlilegt að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru þegar allir aðrir í þjóðfélaginu hafa það ekki.