138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans við fyrri helmingi spurningar minnar. Ég vil hins vegar taka fram að ég las nefndarálitið frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar af miklum áhuga og ég gat því miður bara fundið hálfa setningu þar sem var verið að fjalla um áhrifin af hækkun vísitölu neysluverðs. Ég sá hins vegar hvergi ábendingar sem ég veit að komu fram í umsögn hagsmunasamtaka heimilanna þar sem þau voru búin að reikna út þessi áhrif. Þær tölur koma hvergi fram í nefndarálitinu, þannig að áherslan á akkúrat þessi áhrif virðist vera mjög lítil og er það mjög leitt.

Hins vegar vil ég ítreka spurningu mína varðandi þær ábendingar sem mér skilst að hafi verið kynntar fyrir efnahags- og skattanefnd, um rannsóknir sem ná yfir 37 ára tímabil hjá 21 landi um það hvernig best sé að bregðast við miklum og snörpum hallarekstri. Niðurstöðurnar þar benda til þess (Forseti hringir.) að betra sé að skera niður útgjöld hins opinbera frekar en að hækka skatta.