138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:55]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna er flækjustig í skattkerfum? Hvers vegna er svokallað flækjustig í almannatryggingakerfinu? Það er til að fá fram félagslegt réttlæti, að nýta fjármunina sem eru til ráðstöfunar á markvissan hátt með það að leiðarljósi. Það er flækjustigið. Skattþrep þar sem þeir sem eru betur aflögufærir greiða meira hlutfallslega en hinir sem hafa lítið handa í milli. Þetta er ástæðan fyrir því að menn fara í hið svokallaða flækjustig. Að skattahækkanir séu ónauðsynlegar, það hygg ég ekki. Hvað mundi það hafa í för með sér? (REÁ: Flækjustig er ónauðsynlegt.) Já, en þá er það vegna þess að við erum að reyna að ná fram þessum félagslegu áhrifum, jöfnunaráhrifum.

Varðandi lífeyrissparnaðinn gat ég þess að það væri af tveimur rótum runnið sem fólk væri að taka út. Það væri til í að klára framkvæmdir eða þess vegna ráðast í framkvæmdir en síðan væri hinn hópurinn, sem eflaust er stærstur, að koma í veg fyrir að missa húsnæði sitt vegna mikillar skuldsetningar. Fólk er að fleyta sér áfram. Ég tel að það sé til góðs, og reyndar hitt einnig ef menn geta haldið hjólunum gangandi með smávægilegri innspýtingu í hagkerfið. Ég tel það vera mjög til góðs.