138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að við höfum tamið okkur slík vinnubrögð í of ríkum mæli við breytingar á lögum og þar á meðal á skattkerfinu og það er alveg rétt að menn eru að gera hluti hratt en þetta eru ekki óvönduð vinnubrögð miðað við það sem tíðkast hefur. Ég leyfi mér að fullyrða það. Það sem við höfum reynt að gera er að hlusta á sjónarmið hagsmunaaðila og verða við þeim að því marki sem við teljum ásættanlegt og í samræmi við þau pólitísku markmið sem við höfum sett okkur. Þar erum við ekki endilega á sömu línunni og alls ekki, ég og hv. þingmaður. Við viljum framfylgja stefnu sem byggir á félagslegum jöfnuði, það er okkar markmið, og það erum við að gera með þessum skattkerfisbreytingum, svo og skattkerfisbreytingum sem snúa að tekjuskattskerfinu.