138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek innilega undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að stækka kökuna, örva efnahagslífið, breikka skattstofnana. Það er mikilvægt að við gerum það og m.a. af þeim sökum setjum við fram lagabreytingartillögur sem eru til þess fallnar að styrkja nýsköpun í atvinnurekstri. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að mikilvægt er að ná niður fjármagnskostnaði í landinu. Þetta eru áherslur sem við höfum haldið mjög stíft fram.

Er það rétt að almenningur á Íslandi og fyrirtækin almennt verði fyrir skerðingum? Já, stórfelldum skerðingum. Það á við um samfélagið allt, það á við um alla þá sem þurfa að leita til velferðarþjónustunnar. Hún sætir miklum niðurskurði. Í því er fólgin (Forseti hringir.) skerðing en við erum hins vegar að reyna allt sem í okkar valdi stendur til (Forseti hringir.) að standa vörð um þá sem hafa minnst handa á milli í íslensku þjóðfélagi. Það er (Forseti hringir.) rauði þráðurinn í stefnu þessarar ríkisstjórnar.