138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Það má segja að í skattalögum kristallist ágreiningur vinstri manna og hægri manna. Vinstri menn vilja hlífa þeim sem minna mega sín að þeirra mati og búa til kerfi sem er létt fyrir þá sem hafa lágar tekjur á meðan hægri menn vilja heldur hafa algild skattkerfi og einföld og skattstofna einfalda og án þess að taka mjög mikið tillit til félagslegra aðstæðna. Það leiðir af sjálfu sér að skattkerfi vinstri manna eru alltaf flóknari vegna þess að þau reyna að taka tillit til sem mestra og flestra aðstæðna, barnafjölda, í hvernig sambúð fólk býr, hvort það er eitt eða með börn eða með maka o.s.frv., og síðan hvaða tekjur það hefur. Tilhneigingin er sú að skattarnir eru þeim mun hærri sem tekjurnar eru hærri vegna þess að það á að leggja byrðar á þá sem breiðari hafa bökin og geta þar af leiðandi greitt meira. Þetta er í rauninni grundvallarmunur fyrir utan það að vinstri menn vilja líka hafa jöfnuð að leiðarljósi, að nota skattkerfið til að jafna kjör manna, sem atvinnulífinu eða mönnum sjálfum tekst ekki, og vilja nota skattkerfið og ríkisvaldið til að jafna kjör fólks en ekki bara til að afla ríkissjóði tekna. Þetta er í rauninni meginmunurinn, herra forseti, og mér finnst mjög áhugavert að sjá þau frumvörp sem nú eru að koma inn í Alþingi, þessi þrjú frumvörp sem öll ganga út á þetta.

Svo eru líka inni í þessu umhverfissjónarmið sem eru sívaxandi í heiminum, þ.e. að taka meira tillit til umhverfisins. Svo eru menn með skattlagningu á auðlindirnar til að láta sem sagt alla, sérstaklega þá sem minna mega sín, njóta auðlindarinnar en ekki bara þá sem ráða yfir henni eða stjórna henni. Þetta má segja að séu kerfin í hnotskurn og ég get gjörsamlega fallist á að þetta sé svona, þjóðin kaus til valda vinstri menn og þetta er þá nokkuð sem hún vill væntanlega sjá gerast.

Það sem er kannski miður, herra forseti, er að ekki hefur unnist neinn tími til að vinna í öllum þessum hugmyndum. Ég hugsa að margir þeir sem vilja t.d. koma með margþrepa skattkerfi eða margþrepa virðisaukaskatt og taka tillit til fitu, mjólkur, sykurs og alls konar hluta og stýra neyslu og annað slíkt hefðu viljað gefa sér miklu lengri tíma til að fara í gegnum þessi mál. Ég geri ráð fyrir að þeir sem taka upp margþrepa tekjuskattskerfi mundu hugsanlega vilja fara í það hvernig skattkerfi kemur út fyrir t.d. hjón, sem er mjög illa leyst í nýju kerfi, hvernig það kemur út fyrir barnafólk o.s.frv. Ekkert af þessu gerðist. Það er eiginlega dálítið miður þegar menn gera svona miklar breytingar og þá væntanlega með ákveðna hugsjón á bak við að menn skuli ekki hafa gefið sér góðan tíma, farið í gegnum ákveðna umræðu og hlustað á rök sem eru á móti kerfinu sem er hreinlega villa og leiðrétta þá kerfið í samræmi við þá hugsjón sem þeir hafa.

Þetta er ótrúlega stutt umræða, herra forseti, miðað við hvað þetta eru stór mál og hraðinn er með þvílíkum ólíkindum að umsagnaraðilar hafa aldrei kynnst öðru eins. Við erum sem sagt að gera lagabreytingar sem skipta verulega miklu máli fyrir vinstri menn, reikna ég með. Þess vegna skiptir miklu máli að vel sé vandað til verka og lögin góð þannig að ekki sé um að ræða að menn geri einhver mistök vegna þess, herra forseti, að mistök í lagasetningu sem er ætlað að jafna kjör fólks og annað slíkt geta slegið til baka, þau geta orðið til þess að menn hverfi frá þessum tilraunum en ekki vegna þess að kerfin sjálf reynist illa.

Ég sem hægri maður ætla að leyfa mér að gagnrýna hugsunina á bak við það sem vinstri menn eru að gera. Mér fannst það vera mjög sterkt og koma eiginlega fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar rétt áðan. Hann sagði: Lágtekjufólk, herra forseti, ég undirstrika, lágtekjufólk er einhver þjóðflokkur sem hefur lágar tekjur. Menn tala oft um þetta eins og þetta sé persónueinkenni á fólki, hann er bláeygur og lágtekjumaður, það sé eitthvað óumbreytanlegt. Þarna skilur á milli hægri manna og vinstri manna. Vinstri menn ætla sem sagt að halda þessu fólki sem lágtekjufólki, þetta er bara ákveðinn hópur sem er með þessu kjör og þessi örlög og hann skal vera þarna. Hægri menn segja hins vegar: Við skulum hvetja fólk til að hafa hærri tekjur. Látum fólk hætta að vera lágtekjufólk, látum það fá hærri tekjur. Hvetjum það til þess og látum kerfið vera þannig að fólk sé hvatt til að leita sér meiri menntunar, taka á sig meiri ábyrgð og afla sér hærri tekna. Þarna skilur á milli. Ég er ansi hræddur um, og þess vegna er ég hægri maður en ekki vinstri maður, að þær jöfnunaraðgerðir sem vinstri menn gangast upp í og vilja nota skattkerfið til að jafna geri það einmitt að verkum að allir verða jafnfátækir. Allt er jafnað niður og það er enginn hvati til að bæta sig, enginn hvati til að vera ekki láglaunamaður af því að maður fær eiginlega það sama og allir hinir. Það er enginn hvati til að standa sig og það er enginn hvati til að breyta stöðu sinni sem láglaunamaður. Það er m.a.s. hvati hjá þeim sem eru með háar tekjur af því að þeir sjá að þeir bera ekkert úr býtum hvort sem er ef skattlagningin er nógu ofsafengin. Ég er ekki að segja að það sé hérna, alls ekki, herra forseti, það er alls ekki hérna en það hefur komið í ljós í skandinavískum kerfum að skattlagningin var einum um of jafnaðarsinnuð og þá endar það þannig að allir verða jafnfátækir. Það er nokkuð sem ég er ekki hrifinn af og það er mjög slæmt fyrir kerfið í heild sinni.

Þegar menn lentu í þessum vandræðum, eins og við vorum með núna, tóku þeir þá skynsamlegu ákvörðun sem ég gat alveg fallist á að blanda saman skerðingu á bótum og skattahækkunum. Ég gat alveg fallist á þá hugsun í rauninni að bakka með velferðarkerfið því að það er búið að blómstra alveg gífurlega undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í 18 ár — þar sem hann var víst einn í stjórn þegar illa gekk en ekki í stjórn þegar vel gekk — og á þeim tíma óx velferðarkerfið með þvílíkum endemum að það er með ólíkindum. Ég minni á að laun kennara voru hækkuð sem voru náttúrlega allt of lág á sínum tíma. Laun öryrkja og aldraðra voru bætt stórlega á hverju einasta ári, hætt að taka tillit til tekna maka o.s.frv. Það var stöðugt verið að bæta velferðarkerfið og til þess voru notaðir lækkandi skattar sem stórjuku tekjur ríkissjóðs. Þá kemur þessi skemmtilega spurning, herra forseti: Þegar skattar á einstaklinga eru lækkaðir og tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni hækka, hvort er það skattalækkun eða skattahækkun? Það er nefnilega það athyglisverða. Þetta er eiginlega það sem við erum að ræða um, þ.e. mismunun milli hægri og vinstri, og mér finnst virkilega miður að menn skuli ekki hafa gefið sér meiri tíma til að vinna þessi mál vegna þess að þeir sem eru vinstri sinnaðir hljóta að óttast að einhverjar villur komi upp í þessum kerfum sem gera það að fólk segir: Vinstri-eitthvað er ekki gott.