138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fjöllum hér um enn eitt skattalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, frumvarp sem er svo vanbúið til afgreiðslu að annað eins hefur varla sést á síðari árum í sögu Alþingis. Það hefur verið með ólíkindum að vinna að þessu máli innan veggja efnahags- og skattanefndar sem hefur unnið frá morgni til kvölds undanfarna daga undir mjög erfiðum kringumstæðum. Hér er verið að leggja auknar álögur á heimilin í landinu, of miklar að mínu mati. Við vorum til viðræðu um aðrar leiðir á vettvangi efnahags- og skattanefndar og hér í þinginu. Við í minni hlutanum höfum boðið hæstv. fjármálaráðherra samstarf við þessar breytingar. Ekki hefur verið hlustað á það og heimilin munu því miður súpa seyðið af þessum miklu breytingum. Það er gengið þvert á þau loforð sem gefin voru í aðdraganda síðustu kosninga og það er mjög erfitt að sjá hvernig skuldug heimili muni kljúfa þetta. (Forseti hringir.) Þetta mun leiða til hækkunar á skuldum heimilanna. Við erum að ganga til atkvæða um mjög alvarlegt mál, herra forseti.