138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Fyrir tæpum sólarhring kynnti meiri hluti efnahags- og skattanefndar Alþingis okkur í minni hlutanum þær breytingar sem við tökum nú til afgreiðslu, grundvallarbreytingar á íslenska skattkerfinu þar sem fallið er frá 14% þrepinu sem er vissulega gleðilegt. Við höfum þó einungis haft rúmar 20 klukkustundir til að kynna okkur þessar breytingar og hvaða áhrif þær muni hafa á íslenskt atvinnulíf og almenning. Innan við sólarhring. Við óskuðum eftir því, eða fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, að kallaðir yrðu til gestir til að fara yfir þessar grundvallarbreytingar. Nei, það mátti ekki. Þetta eru þvílík vinnubrögð hjá þessari ríkisstjórn að við þetta verður ekki búið lengur. Það er ekki hlustað á umsagnaraðila. Málin eru keyrð í gegn á þvílíkum leifturhraða og vinnubrögðin eru þannig að í þeirri lagasetningu sem hér er verið að setja leynast örugglega einhver mistök. (Forseti hringir.) Það væru þó svo sem ekki fyrstu mistökin sem þessi ríkisstjórn gerir í þeim efnum.