138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[18:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um svolítið sérstakt mál. Ég get tekið undir með hv. forsvarsmanni allsherjarnefndar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að það sé eðlilegt að um þjóðgarðinn á Þingvöllum gildi sérstök lög, bæði um þá starfsemi sem þar er og þar með talið frístundabyggðir eða sumarhús.

Við 1. umr. um þetta mál benti ég á að mér þætti skjóta svolítið skökku við að fyrir nokkrum árum fóru í gegnum Alþingi lög um réttindi og skyldur í sumarhúsabyggðum, svokölluð frístundalög, sem voru með þeim hætti þegar þau voru fyrst lögð fram að þau voru nánast hrein móðgun við sveitarfélögin og landeigendur í landinu. Sumir gengu svo langt að kalla þau lög um réttindi sumarhúsa en skyldur sveitarfélaga og landeigenda við þau. Sem betur fer náðist að laga ýmislegt í þeim lagabálki þannig að niðurstaðan varð nokkuð ásættanleg. Engu að síður voru sum ákvæðin nokkuð íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu og landeigendur. Mér þótti því skjóta nokkuð skökku við og nefndi það hér í ræðu minni í 1. umr. að þar sem Alþingi fer vissulega með stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum telji menn að réttindi þeirra sem eiga frístundasumarhús og eru í þessari frístundabyggð innan þjóðgarðsins skuli vera með öðrum hætti en í öðrum frístundabyggðum. Ég tók hins vegar undir að það væri mjög eðlilegt að um þjóðgarðinn sem slíkan giltu sérstök lög og reglur og það væri ekkert óeðlilegt að um frístundabyggð sem hefði lent innan löghelginnar á sínum tíma — hvort sem það væri gott eða slæmt — giltu sérstakar reglur. Mér fannst hins vegar ganga of langt að taka einhliða úr gildi lög sem þarna væru og fannst eðlilegra að farið hefði verið yfir lögin og teknir út þeir þættir sem stönguðust á við sérlögin um þjóðgarðinn. Í því sambandi er rétt að benda á að til að mynda hefði mátt fella út II. kafla laganna um frístundabyggðina og eins 19. gr. sem er í III. kaflanum en sá hluti laganna fjallar einmitt um leigutíma og hvernig menn eigi að koma þar fram.

Aðrir hlutar í þessum lögum fjalla hins vegar meira og minna um samskipti frístundahúseigendanna hvers við annan, skyldu af félagsstarfsemi og slíka hluti, marga góða þætti sem æskilegt væri að þetta félag sem væri innan þjóðgarðsins hefði eins og allar aðrar frístundabyggðir. Þegar ég fór hins vegar að skoða þetta gat ég ekki betur séð en að þessi lög sem voru sett um frístundabyggðina ættu fyrst og fremst að gilda um frístundabyggðir þar sem leigutími væri 20 ár eða lengri. Það er því spurning hvort við séum ekki að hlaupa of hratt, eins og við gerum í flestum málum, og það sé í raun og veru óþarfi að fella þjóðgarðinn undan því að hann sé þar alls ekki vegna þess að þar er leigutíminn miklu styttri, tíu ár eða jafnvel styttri. Við framlengjum leigutímann núna um sex mánuði í hvert sinn til þess að skapa svigrúm til þess að koma að eðlilegu deiliskipulagi en það er ekki skrýtið að á þeim tíma hafi því ekki verið komið á. Mér finnst því í raun og veru eðlilegt að á milli 2. og 3. umr. taki nefndin þetta mál til skoðunar aftur, hvort það sé í raun og veru ekki óþarfi að ganga svona langt því hugsanlega gildi þessi lög ekki um frístundabyggðina innan þjóðgarðsins og hins vegar hvort ekki sé skynsamlegra að ákveðnir hlutir í lögunum um frístundabyggð eigi jafnt við um frístundabyggðina innan þjóðgarðsins og aðrar frístundabyggðir.

Nefndin er einhuga í þessu og eins var Þingvallanefnd einhuga að baki þessu. Nú sit ég í þeirri nefnd en sat þar hvorki á þeim tíma sem þetta var lagt til né á hinu fyrra þingi þannig að mér birtust þessi sjónarmið við 1. umr. Ég tel eðlilegt að til þeirra sjónarmiða hefði verið tekið meira tillit, sérstaklega í ljósi þess að þrjár umsagnir bárust en enginn var, held ég, boðaður á fund nefndarinnar samkvæmt nefndarálitinu. Ein af þessum þremur umsögnum var frá Landssambandi sumarhúsaeigenda. Ef ég má vitna í þá umsögn þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Allt frá stofnun Landssambandsins hefur það verið baráttumál þess að fá lagaumhverfi um frístundabyggð og um samskipti landeigenda og leigutaka frístundalóða. Á síðasta ári var það mál loksins í höfn með samþykkt Alþingis á lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sem eru nr. 75/2008. Landssambandið leggst eindregið á móti breytingartillögunni.“

Seinna í sömu umsögn stendur, með leyfi forseta:

„Tekið er á innbyrðis samskiptum lóðarhafa innan sama skipulagða svæðisins, stofnun félagsskapar til að taka fjárhagslegar ákvarðanir vegna sameiginlegs kostnaðar og samskiptum félagsins við viðkomandi sveitarfélag.“

Ég tel eðlilegt að þarna hefði verið aðeins tekið tillit til þessa hlutar.

Einnig sendu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga inn umsögn og mig langar, með leyfi forseta, til að lesa eftirfarandi umsögn sem var samþykkt:

„Stjórn SASS gerir athugasemdir við að þjóðgarðurinn verði að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð. Eðlilegra væri að tiltaka þær greinar laganna um frístundabyggð sem ekki eigi við um þjóðgarðinn. Stjórn SASS leggur jafnframt til að við 2. grein laganna verði bætt ákvæði um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefnd til viðbótar þeim sjö þingmönnum sem í henni sitja, eða, til vara, fái áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Rökin eru augljós, verkefni nefndarinnar skarast að sumu leyti á við verkefni sveitarfélagsins samkvæmt lögum og því nauðsynlegt að fullt samráð sé á milli þessara aðila auk þess sem nauðsynlegt upplýsingaflæði væri tryggt.“

Ég vil taka undir þetta. Úr því að nefndin kaus að fjalla líka um og bæta við breytingartillögum um kosningar til Þingvallanefndar, bæði kjörtíma og með hvaða hætti, hefði þetta tækifæri átt að vera notað til þess að bæta þessum umsagnaraðila eða áheyrnarfulltrúa Bláskógabyggðar inn. Eins og allir vita eru Þingvellir í sveitarfélaginu Bláskógabyggð og stjórnsýsla Þingvallanefndar á mikil samskipti við sveitarstjórn og fulltrúa skipulags- og byggingarmála, heilbrigðiseftirlits og annarra þátta. Það væri ekkert óeðlilegt að fulltrúi sveitarfélagsins væri áheyrnarfulltrúi í þeirri nefnd. Sjálfur hefði ég reyndar viljað ganga lengra og mun kannski koma með mál inn á þingið þegar frá líður um annars konar stjórnun á þjóðgörðum, þar á meðal þjóðgarðinum á Þingvöllum, en við þekkjum í dag.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð sendi líka inn umsögn og mig langar að lesa þá bókun, með leyfi forseta:

„Frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Byggðaráð vill benda á að sveitarfélög gerðu athugasemdir við setningu laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, 75/2008, og vill vísa til áður fram kominna athugasemda sveitarfélaga þar að lútandi. Byggðaráð telur að það hefði átt að vanda betur til verka við setningu þeirra laga og taka meira tillit til sjónarmiða sem fram komu í innsendum athugasemdum sveitarfélaga.“

Ég vil enda mál mitt á því að leggja til að nefndin fjalli aðeins um þessar umsagnir og taki meira tillit til þeirra en hér kemur fram. Ég legg til að nefndin skoði einfaldlega hvort þetta frumvarp sé óþarft, að lögin um frístundabyggðina í þjóðgarðinum á Þingvöllum nái ekki yfir þá byggð vegna þess að leigutíminn sé styttri en 20 ár. Einnig til að tryggja það, eins og hugmyndin með þessu frumvarpi var, að um þessa frístundabyggð innan þjóðgarðsins sé enginn vafi og að það sé alveg klárt að lög og reglur Þingvallanefndar, eða lög um þjóðgarðinn, gildi um þessa frístundabyggð. Það mætti auðvitað líka velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt.

Varðandi þessar breytingartillögur fer ég jafnframt fram á eða finnst skynsamlegt að allsherjarnefnd skoði hvort ekki sé skynsamlegt að bæta við heimild til þess að Bláskógabyggð hafi áheyrnarfulltrúa í Þingvallanefnd þar sem það muni bæði auka samskipti milli þessara tveggja stjórnsýsluþátta sem þarna þurfa að koma saman við að stjórna Þingvöllum svo vel sé og eins til þess að bæta allt upplýsingaflæði þar á milli.