138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[18:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á áðan hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gert ákveðnar athugasemdir við þetta mál og mig langar að fara aðeins yfir málið út frá þeim athugasemdum.

Stjórn SASS hefur gert athugasemdir við að þjóðgarðurinn verði að öllu leyti undanþeginn lögunum um frístundabyggð. Ég verð að segja, frú forseti, að ég tel rétt að allsherjarnefnd skoði þetta atriði aðeins betur vegna þess að miðað við röksemdafærsluna í nefndarálitinu er einfaldlega um afmarkað atriði að ræða sem þyrfti að taka tillit til. Ég tel því rétt að taka undir þær hugmyndir sem hv. þingmaður kom með hér að framan að allsherjarnefnd fari aðeins betur yfir þetta og kanni hvort ekki væri réttara að undanþiggja þjóðgarðinn ákveðnum köflum og ákvæðum laganna. Ég tel rétt að fólkið sem býr í þessu landi sitji allt við sama borð sama hvar það býr og sama hvar það er með sín frístundahús. Það verða alla vega að vera skilaboðin sem við sendum út héðan frá Alþingi. Ef gera á einhverjar undanþágur frá því, eins og við erum að gera hér, verður það náttúrlega að vera skýrt og rökstutt. Það getur vel verið að ástæða sé til þess að hafa þetta svona vítt en það er þá alla vega ekki rökstutt með fullnægjandi hætti í þessu nefndaráliti.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson fór ítarlega yfir þessa röksemdafærslu og ég tel því ekki rétt að lengja umræðuna um þetta atriði mjög mikið. Ég vil þó segja að lokum að ég tel jafnframt rétt að allsherjarnefndin skoði aðeins þessa beiðni eða þessar hugmyndir frá stjórn SASS um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefndinni til viðbótar þeim sjö þingmönnum sem í henni sitja og þá sem áheyrnarfulltrúi. Ég tel að það yrði einfaldlega til þess að gera alla stjórnsýslu skilvirkari og samskiptin á milli Þingvallanefndar og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar liðugri.