138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[18:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til þess að fagna þeirri samstöðu sem var í hv. allsherjarnefnd um afgreiðslu þessa máls sem nú er lagt fyrir Alþingi öðru sinni. Ég vil vekja athygli á því að þetta mál hlaut afgreiðslu í allsherjarnefnd fyrir síðustu kosningar, það er sem sagt á tveimur kjörtímabilum og tvær ólíkar Þingvallanefndir hafa borið það fram. Fulltrúar allra flokka í tveimur Þingvallanefndum og fulltrúar allra flokka í tveimur allsherjarnefndum Alþingis hafa mælt með því að það yrði samþykkt.

Vel kann að vera að menn hafi ekki áttað sig á því að þjóðgarðurinn á Þingvöllum er einstakur og ekki eins og hver önnur venjuleg sumarhúsabyggð. Frú forseti. Í 1. gr. laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum segir:

„Þingvellir við Öxará og grenndin þar skal vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður.“

Það er meginmarkmiðið með lögum um Þingvelli, allra Íslendinga sem þjóðgarður.

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

„Þjóðgarðurinn á Þingvöllum skal vera undir stjórn Þingvallanefndar,“ segir síðan í 2. gr. Og í 5. gr:

„Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar.“

Í þessum lögum er tekið sérstaklega á stjórnsýslunni í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þetta eru lög frá 2004. Reglugerð sem fylgir þessum lögum og stefnumörkun þjóðgarðsins til ársins 2024 byggir á þessari lagasetningu til 20 ára og miðar við að sumarhúsabyggðin sem er í þjóðgarðinum hverfi þaðan smám saman þannig að ákvæði 1. gr. laganna um að Þingvellir við Öxará og grenndin þar skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður. Það er markmiðið í stefnumörkun þjóðgarðsins. Þetta er því ekki fyrst og fremst sumarhúsasvæði.

Þessi lög greinir á við lög um frístundabyggð um nokkuð mörg atriði, ekki bara leigutímann til 20 ára hið skemmsta. Í 1. gr. laga um frístundabyggð segir að þau lög skuli vera ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram eða leiði af eðli máls. Þar segir líka að það megi veðsetja leigusamningana sem hér um ræðir. Þeir eru aðfararhæfir en það brýtur klárlega í bága við það sem segir í lokamálsgrein 1. gr. um þjóðgarðinn á Þingvöllum, að hið friðlýsta land skuli vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar og það megi aldrei selja eða veðsetja. Þetta fer ekki heim og saman.

Bent hefur verið á að það geti verið gott að setja upp félag eins og áskilið er í lögunum um frístundabyggð, að það skuli stofna félag sumarhúsaeigenda á hverju svæði. Þar segir líka að þetta félag eigi að taka ákvarðanir um lagningu og viðhald akvega og göngustíga að og innan svæðis o.s.frv. í 19. gr. Þetta samrýmist ekki þeim ákvæðum laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum að samþykki Þingvallanefndar sé áskilið fyrir öllu jarðraski og mannvirkjum og að þjóðgarðurinn skuli vera undir stjórn Þingvallanefndar.

Loks vil ég benda á 25. gr. laganna þar sem fjallað er um úrskurðarnefnd frístundamála og að ráðherra frístundamála, sem ég hygg að sé hæstv. samgönguráðherra sem er ráðherra sveitarstjórnarmála, fari með reglugerðarvald og úrskurðarvald í málefnum frístundabyggða. Álit og úrskurðir úrskurðarnefndar frístundahúsamála eru endanlegir á stjórnsýslustigi, segir hér. Þetta brýtur beint í bága við það sem segir í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem heyrir undir forsætisráðuneytið. Þetta skarast því á býsna mörgum sviðum. Yfir þetta var vandlega farið í nefndinni, bæði núverandi og fyrrverandi Þingvallanefnd, og það er eflaust ástæðan fyrir því að menn voru á eitt sáttir um þetta.

Ég vil vekja athygli á því að félag sumarhúsaeigenda á Þingvöllum er starfandi, þ.e. í Kárastaðalandinu og á Valhallarstíg en ég veit ekki hvort það er á Gjábakka þar sem eru örfá hús. Í þjóðgarðinum eru 80–90 hús og það er starfandi félag sumarhúsaeigenda fyrir alla vega 80 þeirra eða fleiri.

Ég vil fagna því hversu góð samstaða hefur orðið um þetta mál enn á ný. Hér eru ákvarðanir ekki teknar á hlaupum, þetta er vel unnið mál á tveimur þingum. Þó hefur komið fram beiðni um að hv. allsherjarnefnd taki málið aftur til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og þá er alltaf orðið við því ef hægt er að upplýsa hv. þingmenn betur um stöðu mála.