138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Hér er um afar stórt mál að ræða, að mínu mati eitt af stærri málunum sem við fjöllum hér um á síðustu dögum þessa þings. Ég tel þetta mál einnig prófstein á styrk Alþingis til að takast á við niðurstöður þeirrar rannsóknarskýrslu sem fram undan er og áður en ég fer að fara beinlínis yfir nefndarálitið, frú forseti, vil ég segja að það er hefð fyrir því í öðrum þingum, í löndunum í kringum okkur og í raun og veru í öllum heiminum, að sérstakar rannsóknarnefndir þingmanna fari yfir tiltekin mál. Sums staðar eru fastar rannsóknarnefndir starfandi allt kjörtímabilið allt árið um kring, nefndir sem kosið er í sérstaklega, ekki endilega sömu þingmenn og sitja í forsætisnefnd viðkomandi þinga.

Ég vil líka geta þess, frú forseti, í þessu samhengi að forsætisnefnd eða forseti þingsins, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafði forustu um að láta vinna skýrslu um eftirlitshlutverk Alþingis því að það vantar mjög mikið inn í allan „litteratúr“ um þingið, eftirlitshlutverk þess og stöðu og hlutverk Alþingis. Sérfræðingar voru fengnir til þess að fara yfir og koma með tillögur til forsætisnefndar um hluti sem mætti breyta. Þeirri skýrslu hefur verið dreift og vonandi hafa sem flestir hv. þingmenn haft tækifæri til að kynna sér hana. Í henni komast skýrsluhöfundar m.a. að því að það sé mjög æskilegt að Alþingi kjósi fasta eftirlitsnefnd eða þingmannanefnd sem starfi árið um kring og sé kosin í upphafi þings eins og aðrar þingmannanefndir, fastar rannsóknarnefndir sem geti þá tekið fyrir mál sem eru í deiglunni í samfélaginu hverju sinni og Alþingi ákveður að setja í rannsókn. Ég held að þetta sé afar mikilvægt og ég held að það sé mjög brýnt að þetta verði sett á laggirnar á Alþingi líkt og í öðrum þjóðþingum. Það má auðvitað segja að að mörgu leyti sé óheppilegt að við setjum í skugga hrunsins í fyrsta skipti á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis til langframa. Auðvitað áttum við að vera búin að því fyrir löngu. En það þýðir ekki að velta sér upp úr því, það er búið og gert.

Ég vildi hafa þennan aðdraganda áður en ég fer yfir nefndarálitið, frú forseti, að ég tel afar brýnt að svona föst rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar.

Við í allsherjarnefnd fengum mjög marga gesti á fundi okkar til að fara yfir málið. Það var hins vegar ákveðið að setja málið ekki í umsagnarferli eða senda það til einstakra umsagnaraðila enda erfitt að færa fyrir því gild rök hvaða aðilar úti í samfélaginu ættu frekar að fá þetta mál til umsagnar en einhverjir aðrir. Það hafa allir skoðanir á málinu.

Ef ég byrja þá á því að fara yfir þetta nefndarálit er í frumvarpinu lagt til að frestur nefndarinnar til að skila skýrslu verði færður til janúarloka svo nefndinni verði unnt að ljúka úrvinnslu gagna og ganga frá skýrslunni til Alþingis. Það er lagt til hvernig meðferð Alþingis á skýrslunni skuli háttað, m.a. með kosningu níu þingmanna í nefnd til að fjalla um skýrsluna og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Einnig eru lögð til ákvæði um það hvernig háttað skuli varðveislu og aðgangi að rafrænum gagnagrunnum sem orðið hafa til í vinnu nefndarinnar. Í þriðja lagi er lagt til að þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni verði tryggð ákveðin friðhelgi gegn hugsanlegum málssóknum vegna starfs síns í þágu rannsóknarinnar.

Eins og ég sagði í inngangi er frumvarpið lagt fram af forsætisnefnd og hefur þar verið gert samkomulag um fyrirkomulag á meðferð Alþingis á skýrslu sem rannsóknarnefndin skal skila Alþingi og mun innihalda rökstuddar niðurstöður rannsóknarinnar ásamt ábendingum og tillögum um úrbætur.

Ástæðan fyrir því að fresturinn til að skila skýrslunni fyrir 1. nóvember var lengdur var að það kom í ljós við vinnu rannsóknarnefndarinnar og ekki síður við úrvinnsla gagnanna að þetta var mun umfangsmeira og stærra verkefni en nokkurn óraði fyrir. Við leggjum sem sagt til að hann verði færður til janúarloka á næsta ári eins og rannsóknarnefndin hefur óskað eftir. Auðvitað gerum við okkur, held ég, flestöll grein fyrir því að mjög margir aðilar í samfélaginu urðu fyrir vonbrigðum með að nefndin gæti ekki skilað skýrslunni eða tillögum sínum á réttum tíma. Ég er ein af þeim. Hins vegar er þetta mál þannig vaxið og af stærðargráðu að ég tel einhverja mánuði til eða frá ekki skipta sköpum ef niðurstaðan sem nefndin skilar verður vel unnin, góð og kemur okkur að einhverju gagni. Þá skipta einn, tveir eða þrír mánuðir engu máli í stóra samhenginu.

Varðandi skipun nefndarinnar ræddum við það ákvæði frumvarpsins sem kveður á um kosningu níu þingmanna nefndar sem ætti að fjalla um málið og að um þingmannanefndina giltu ákvæði laga um þingsköp Alþingis. Það kemur fram í frumvarpinu að þingflokkunum gefist tækifæri til að velja sérstaklega fulltrúa sem verður trúað fyrir þessu vandasama verkefni. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, ég tel að Alþingi sjálft geti ekki skorast undan því hlutverki að taka þessa skýrslu til efnislegrar meðferðar. Það geta ekki einhverjir aðilar úti í bæ gert. Að sjálfsögðu mun nefndin fá til sín sérfræðinga til aðstoðar til að vinna ákveðna vinnu en hins vegar er afar mikilvægt að þingið og þingmannanefnd taki á þessu máli. Við teljum einnig mikilvægt að það sé samstaða um skipun þessarar nefndar að því leytinu til að einn listi verði borinn upp í þinginu um skipun þessarar þingmannanefndar. Ég held að það skipti máli líka til að tryggja að þingmannanefndin geti staðið undir því mikilvæga verkefni að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu ræddum við einnig um heimildir nefndarinnar til að kalla til sérfræðinga telji hún nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um einstök atriði. Getur hún þá falið einum eða fleiri sérfróðum aðilum að rannsaka þau og gefa sér skýrslu um niðurstöðuna. Um slíka framhaldsrannsókn gilda II., III. og VI. kaflar laganna, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga. Við teljum að með því verði unnt að viðhalda því trausti sem byggst hefur upp gagnvart starfi rannsóknarnefndarinnar. Ég undirstrika þetta vegna þess að í umræðum úti í samfélaginu hefur þess misskilnings gætt að þessi þingmannanefnd eigi ein og óstudd algerlega að fjalla efnislega um allt sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Svo er að sjálfsögðu alls ekki. Hún mun hafa þarna heimild til að kalla til sérfræðinga, hvort sem það eru lögfræðingar, hagfræðingar eða einhverjir aðrir sérfræðingar, til að hjálpa sér að komast að niðurstöðu.

Við ræddum það einnig hvort leggja ætti til að þingmannanefndin skilaði tillögum sínum innan ákveðins frests frá kosningu. Fyrir liggur að viðfangsefni þingmannanefndarinnar og þingsins í heild mun ráðast af umfjöllun rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Hlutverk þingmannanefndarinnar verður væntanlega að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar varðandi breytingar á lögum og reglum. Þá mun hún væntanlega líka fjalla um hvaða lærdóm er hægt að draga af bankahruninu og efnahagsáföllunum, og eftir atvikum að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því leyti sem það fellur undir hlutverk þingsins. Ég vil sérstaklega draga fram að ég tel mjög mikilvægt að þingmannanefndinni verði ekki gefinn of langur tími til að skila tillögum sínum. Í nefndarálitinu er sérstaklega tekið fram að þingmannanefndin skuli skila tillögum sínum á þessu löggjafarþingi þannig að ramminn sé alveg klár um það að þetta getur tekið nokkurn tíma, ég tala nú ekki um ef þarna koma fram einhver atriði — og nú er ég ekkert að segja að svo verði, ég hef ekki hugmynd um hvað stendur í þessari skýrslu frekar en einhverjir aðrir — og það þarf að grípa til landsdóms eða einhvers slíks þarf að vanda mjög vel til verka og þess vegna setjum við þarna inn þennan tímafrest um að skilin verði á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ég vil einnig nefna að við í nefndinni fjölluðum nokkuð um þann hluta frumvarpsins sem varðar meðferð gagnagrunna, varðveislu og aðgang að þeim. Það er alveg ljóst að það er búið að vinna alveg gríðarlega mikla vinnu á undanförnum mánuðum við að safna saman viðkvæmum persónulegum upplýsingum um fjármál einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félaga og það er ekki alveg sama með hvaða hætti farið er með þessar upplýsingar eða gagnagrunna þegar búið er að skila þeim inn. Þeir gagnagrunnar og þær upplýsingar munu að sjálfsögðu ekki liggja fyrir í hinni eiginlegu skýrslu rannsóknarnefndarinnar, heldur eru þetta fylgiskjöl, þetta eru bakgögn og þess vegna skiptir mjög miklu máli að hluti af þessum upplýsingum sé ópersónugreinanlegur.

Þegar við í allsherjarnefnd fórum að fara yfir frumvarpið þegar það kom inn til okkar fannst okkur ekki alveg nógu skýrt þetta atriði um persónugreinanleika upplýsinganna og að okkar frumkvæði gerðu m.a. Persónuvernd og fulltrúi Þjóðskjalasafnsins athugasemdir við þetta. Við komumst því að þeirri niðurstöðu að leggja fram sérstakar breytingartillögu um þetta ákvæði og við vörum við lögfestingu ákvæðisins í óbreyttri mynd. Persónuvernd minnir í þessu áliti einnig á efni dóms Hæstaréttar um gagnagrunn á heilbrigðissviði sem ýmsir þekkja hér inni. Lögin um gagnagrunninn gerðu ráð fyrir því að handhafar framkvæmdarvalds mundu sjá um að gera gögnin í því máli ópersónugreinanleg. Ég ætla svo sem ekki, frú forseti, að lesa upp tilvitnunina frá orði til orðs, hún er á bls. 3 í nefndarálitinu og menn geta kynnt sér dóminn. Það er einmitt með vísan til þessa rökstuðnings sem allsherjarnefnd gerir þessa breytingartillögu og með leyfi frú forseta langar mig að lesa breytingartillögurnar. Þær eru tvær og sú fyrri hljóðar svona:

„Þegar rannsóknarnefndin afhendir gagnagrunna til Þjóðskjalasafns skal hún merkja þá eftir því hvort um er að ræða gagnagrunn með ópersónugreinanlegum upplýsingum eða persónugreinanlegum. Þjóðskjalasafni er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum í persónugreinanlegum gagnagrunnum nema að því marki sem reglur upplýsingalaga um aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga leyfa. Þjóðskjalasafni Íslands er hins vegar heimilt að afhenda afrit af þeim gagnagrunnum sem hafa að geyma ópersónugreinanlegar upplýsingar og upplýsingar sem verða ekki raktar til nafngreindra fyrirtækja.“

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að Persónuvernd sjálf komi að vinnslu umræddra upplýsinga á Þjóðskjalasafni, þ.e. að aðgerðum til að fækka persónugreinandi þáttum og öðru sem lýtur að öryggi. Persónuvernd benti réttilega á að þessu yrði að breyta í ljósi eðlis stofnunarinnar sem er í raun eftirlits- og úrskurðaraðili með ákveðinni vinnslu að og að þjóðskjalaverði sjálfum eða Þjóðskjalasafninu sem ábyrgðaraðila gagnanna yrði þá falið þetta verkefni. Ef síðan kæmi upp ágreiningur um ákvarðanir þjóðskjalavarðar eða Þjóðskjalasafns þyrfti úrlausnin að vera á hendi Persónuverndar með sama hætti og almennt er. Þá er að mati Persónuverndar ekki skýrt hvers vegna sérstaklega er vikið að eyðingu persónuauðkenna af gögnum sem tengjast launaupplýsingum, þ.e. í málsgrein um fræðilegar rannsóknir, og leggur hún til að það ákvæði verði fellt brott. Með tilliti til þessara athugasemda sem allsherjarnefnd var sammála leggjum við til svohljóðandi breytingu á 4. mgr. sem verður þá 3. mgr., að hún orðist svo, með leyfi forseta:

„Taka skal sérstakt afrit af gagnagrunnunum til fræðilegra rannsókna. Þjóðskjalavörður ákveður hvort afmá beri persónuauðkenni úr gagnagrunnunum eða nota aðrar aðferðir til þess að vernda persónuupplýsingar. Persónuvernd úrskurðar um ágreining sem rís um ákvarðanir hans.“

Persónuvernd taldi einnig rétt að árétta að því fylgi mikill kostnaður að ganga þannig frá gagnagrunnunum varðandi dulkóðun og bjögun upplýsinga að hægt sé að leyfa fræðimönnum aðgang að gagnagrunnunum sjálfum til þess að framkvæma vísindarannsóknir. Á meðan ekki hefur verið gengið þannig frá gagnagrunnunum er að mati Persónuverndar ekki hægt að nota þá nema fyrir milligöngu starfsmanns Þjóðskjalasafns eða trúnaðarmanns sem mundi framkvæma þær aðgerðir eða rannsóknir sem um væri beðið og afhenda ópersónugreinanlegar niðurstöður á kostnað verkkaupa. Í 9. mgr. er kveðið á um að ábyrgðarmaður rannsóknar sem óskar eftir að gera fræðilega rannsókn á gagnagrunnunum um bankahrunið skuli þá greiða fyrir allan þann kostnað sem hlýst af framkvæmd rannsóknarinnar og eftirliti með því að reglum og skilmálum sé fylgt auk kostnaðar við það ef t.d. Þjóðskjalasafn þarf að kalla til sérfræðing við framkvæmd eða eftirlit með rannsókninni. Við föllumst einnig á þessar athugasemdir og teljum eðlilegt að ábyrgðarmaður rannsóknar beri kostnað sem til fellur vegna eftirlits Persónuverndar.

Í þriðja lagi, frú forseti, er hér gerð grein fyrir friðhelgi rannsóknarnefndarinnar. Ég tel það afar mikilvægt málefni. Það skiptir máli að kveða með mjög skýrum hætti á um skaðleysi nefndarmanna í rannsóknarnefndinni og þeirra sem tóku sæti í vinnuhópum rannsóknarnefndarinnar eða á vegum hennar. Þetta ákvæði mun þá einnig ná til þeirra sem vinna að framhaldsrannsókn í samræmi við frumvarpið. Þetta held ég að sé afar mikilvægt atriði miðað við þær upplýsingar sem við höfum t.d. fengið frá nefndarmönnum sjálfum og formanni rannsóknarnefndarinnar. Mjög margir einstaklingar hafa komið fyrir nefndina með upplýsingar, þeim hefur auðvitað verið heitið trúnaði og þeir hafa í sumum tilfellum líka óskað eftir nafnleynd. Rannsóknarmennirnir sjálfir búa yfir ýmsum upplýsingum sem einstaklingar og ekkert síður sem nefndarmenn og þess vegna skiptir afar miklu máli að það sé hafið yfir allan vafa að þeir einstaklingar sem fara sjálfir fyrir rannsóknarnefndinni þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þeir geti orðið lögsóttir fyrir það sem stendur í skýrslunni. Þess vegna er þetta afar mikilvægt atriði.

Þetta eru þessi þrjú helstu atriði í nefndarálitinu um rannsóknarskýrsluna. Ég hef einnig gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem allsherjarnefnd leggur til. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi og hef sagt á nefndarfundum, þetta er stórt og mikilvægt mál og mér finnst skipta mjög miklu máli að á þinginu náist eins mikil samstaða og hægt er um meðferð þessara mála. Nóg er nú tortryggnin í samfélaginu í augnablikinu þó að við þingmenn ölum ekki á henni með einhverjum vangaveltum um það til að mynda að þinginu sé ekki treystandi til að fara með þessa skýrslu, einstökum þingmönnum sé ekki treystandi vegna þess að þeir séu allir „samsekir“ þeim einstaklingum sem hugsanlega kynnu að verða nefndir í skýrslunni vegna þess að þeir séu í sama stjórnmálaflokki. Staðreyndin er sú, frú forseti, að alls staðar í þingunum í kringum okkur, alls staðar í heiminum, eru þingmannanefndir sem hafa farið í gegnum erfið mál. Þingin hafa staðist þá prófraun. Hér má nefna dæmi sem margoft er nefnt þegar talað er um þetta, hið svokallaða Tamílamál í Danmörku. Það tók mörg ár í rannsókn en niðurstaða þess máls varð sú, eftir skoðun þingmannanefndar, að fyrst sagði af sér ráðherra sem gekkst við ábyrgð á grundvelli þeirrar skýrslu sem lögð var fram og í kjölfarið sagði af sér ríkisstjórn vegna þessa máls. Og þó voru í rannsóknarnefnd þess þings á sínum tíma þingmenn úr sömu stjórnmálaflokkum og sú ríkisstjórn sem fór frá. Ég brýni fyrir mönnum í þessari umræðu að gera þingmönnum það ekki upp að einhverjar annarlegar hvatir búi að baki eða menn geti ekki tekið málefnalega afstöðu vegna þess að þeir sem undir eru í rannsókninni séu í sama stjórnmálaflokki og þeir þingmenn sem eiga að setjast í viðkomandi þingmannanefnd. Aðalatriði málsins er að þetta er prófsteinn á styrk Alþingis og þetta verður — (Gripið fram í: Er það aðalatriðið?) að mínu mati mun meðferð þingsins á þessari skýrslu sýna hvort þingið hefur styrk til þess eða ekki. Og ég fullyrði að ég treysti þeim þingmönnum sem koma til með að setjast í þessa nefnd fyllilega til að starfa þar af heilindum og heiðarleika og ég vil a.m.k. ekki fyrir fram gefa mér að fólk starfi af einhverjum annarlegum hvötum í slíkri nefnd. Reynsla annarra þjóða sýnir svart á hvítu að það hefur ekki gerst. Menn hafa staðist þessa prófraun.

Að síðustu vil ég segja það, frú forseti, að allt tal um það að einhverjir aðrir geti fjallað um þessa skýrslu eða séu til þess bærir finnst mér vera algjörlega úr lausu lofti gripið. Ég sé ekki hvaða aðrir ættu að gera það vegna þess að þetta er fyrst og fremst hlutverk þingsins. Hinir „aðrir“ sem munu koma að þessari vinnu eru sérfræðingarnir sem í þessu frumvarpi er einmitt lagt til að þingmannanefndin kalli til sér til ráðgjafar og aðstoðar til að meta tiltekin lögfræðileg álitaefni ef þau koma upp í skýrslunni. Gleymum því ekki að samkvæmt lögunum um landsdóm og ráðherraábyrgð getur þingið sjálft aldrei nokkurn tímann skotið sér undan ábyrgð í því máli. Það er í stjórnarskránni. Okkur ber sem þingmönnum að taka afstöðu til þess álitaefnis, það gerir enginn úti í bæ fyrir okkur. Við verðum að gera það. Við, þessi 63 sem sitjum hér inni, verðum alltaf samkvæmt stjórnarskránni að gera það og getum ekki vikist undan því.

Frú forseti. Ég hef þá lokið við að fara yfir nefndarálitið og þau álitaefni sem ég tel vera uppi og þær breytingartillögur sem allsherjarnefnd leggur til. Ég vonast til að málið fái hér málefnalega umfjöllun og að á þinginu náist síðan samstaða um afgreiðslu þess.