138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

samruni opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

275. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. samgn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá samgönguráðuneyti, frá Flugstoðum og Keflavíkurflugvelli.

Markmiðið með frumvarpinu er að heimila samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að samþykkja samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í nýtt opinbert hlutafélag. Flugstoðir ohf. tóku til starfa 1. janúar 2007 og tóku við rekstri og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi af Flugmálastjórn Íslands. Einnig var Flugstoðum ohf. falið að annast alla flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Keflavíkurflugvöllur ohf. tók við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. 1. janúar 2009. Félaginu var falið að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar (Keflavíkurflugvallar) o.fl.

Forsaga málsins er sú að í janúar 2009 skipaði ráðherra starfshóp um sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Í honum áttu sæti Jón Karl Ólafsson, Margrét S. Björnsdóttir og Ólafur Nilsson. Fram kom í niðurstöðum að starfshópurinn telur að sameinað félag, með vel skilgreindum rekstrarþáttum og markmiðum, gæti betur en núverandi félög haft heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og væri jafnframt hæfara til að móta stefnu um samþættingu verkefna, til að ná auknu hagræði í rekstri og fjárfestingum. Sameinað félag gæti veitt betri þjónustu og væri færara um hvers kyns þróun og sókn í málaflokknum.

Eftir umfjöllun um málið er það niðurstaða nefndarinnar að sú tilhögun sem kynnt er í frumvarpi þessu sé mjög jákvæð og til þess fallin að auka hagræði í rekstri. Nefndin telur rétt að ráðist sé í þessar aðgerðir eins fljótt og kostur er í því skyni að ná fram þeirri hagræðingu og rekstrarhagkvæmni sem talið er að samruninn muni leiða af sér strax á næsta ári. Á fundi nefndarinnar var rætt um það félagaform sem byggt er á. Í því samhengi var vikið að skipun stjórnar og hvort ef til vill ætti að kveða á um skipun hennar í lögunum á svipaðan hátt og gert er í lögum nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Nefndin áréttar að þrátt fyrir heimild hins nýja félags til að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum sem og heimild til að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi félagsins á sem hagkvæmastan hátt, sbr. 4. gr., er megintilgangur félagsins lögbundinn og á að vera á hendi félagsins. Að þessu sögðu áréttar nefndin mikilvægi þess að allar leiðir til hagræðingar séu kannaðar, þó þannig að reynt sé að tryggja að störf glatist ekki.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að í stað dagsetningarinnar „31. desember 2009“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi: 31. janúar 2010.