138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Við tökum nú til umræðu frumvarp um tekjuskatt sem hefur verið til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd um nokkurt skeið. Hér liggja fyrir breytingartillögur og nefndarálit meiri hlutans á þingskjölum 258 og 259 og vísast til þeirra.

Í frumvarpi þessu er verið að innleiða verulegar kerfisbreytingar í tekjuskattinum. Verið er að innleiða þriggja þrepa tekjuskatt sem gerir ráð fyrir því að eftir því sem menn hafa meiri tekjur þess meira greiði þeir í skatta. Slík þrepaskipt skattkerfi eru vel þekkt í nágrannalöndum okkar og víðast hvar í Evrópu en fram að þessu höfum við á stundum verið með eins þreps kerfi, að vísu vaxandi, og nú undir það síðasta tveggja þrepa kerfi í tekjuskatti, þannig að hér er um grundvallarkerfisbreytingu að ræða sem að þessu sinni gerir okkur kleift að verja tekjur undir 270 þús. kr. á mánuði sem munu þá ekki lenda í hækkunum á tekjuskatti á komandi ári þrátt fyrir hina erfiðu stöðu ríkissjóðs en þeir sem eru yfir þeim tekjum hækka nokkuð eða upp í allt að liðlega 2% af tekjum sínum, þ.e. þeir sem eru yfir 270 þús. kr.

Með þessum hætti er leitast við að reyna að dreifa með sem réttlátustum hætti þeim byrðum sem þurfa að lenda á tekjuskattinum en sérstakt fagnaðarefni er að frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram og til dagsins í dag hafa horfur ríkissjóðs á næsta ári breyst heldur til batnaðar, þannig að tekist hefur að draga mjög verulega úr þeim hækkunum sem áður voru taldar nauðsynlegar í tekjuskattinum. Ég held að þegar horft er til þess ástands sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá ekki síst í fjármálum ríkissjóðs séu þetta eins varfærnar breytingar í tekjuskattinum og við var að búast eftir jafngríðarleg áföll og við höfum orðið fyrir á Íslandi.

Meiri hlutinn styður kerfisbreytinguna og það sem í henni felst og þá viðleitni. Gert er ráð fyrir að í framhaldinu verði líka farið í að skoða aðra þætti sem tengjast tekjuskattskerfinu en það eru bótakerfin sem eru samofin tekjuskattskerfinu, bæði persónuafslátturinn og sömuleiðis barnabætur og vaxtabætur. Það verður mikið ánægjuefni að fá niðurstöður úr slíkri vinnu sem menn þurfa auðvitað að gefa sér enn betri tíma í en í þessum breytingum. Ég held að eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega vel að í því sé að setja mörk við jaðarsköttun vegna þess að helsti ágallinn við mjög þrepaskipt tekjuskattskerfi eru jaðaráhrifin í kerfinu vegna þess að bæði lendir fólk í því að fara upp í skattprósentu og skattþrepi og þegar bætur skerðast á móti. Þessu hafa til að mynda frændur okkar Danir mætt í sinni löggjöf með því að setja skýr ákvæði um hámark jaðarskatta til að koma í veg fyrir mjög mikil jaðaráhrif í tekjuskattskerfinu og hefur gefið ágæta raun hjá þeim. Ég hygg að það væri skynsamlegt fyrir okkur þegar við leggjumst síðan í framhaldinu yfir samspil bótakerfanna og tekjuskattsþrepanna að við hugum að því að setja með svipuðum hætti slíkt ákvæði í okkar löggjöf.

Meiri hlutinn gerir ekki ráð fyrir verulegum breytingum á þeim tillögum sem eru komnar fram um þennan þriggja þrepa tekjuskatt en við leggjum þó til að mörkin í honum milli þrepanna, 200 þús. kr. á mánuði annars vegar og 650 þús. kr. hins vegar, verði tengd launavísitölu þannig að eftir því sem laun í landinu hækki taki þessi mörk hækkun. Það er til þess að koma í veg fyrir að þessi þrep verði föst í krónutölu og að skattbyrði fólks aukist jafnt og þétt eftir því sem lífskjör hér — við þessar aðstæður verður maður að segja vonandi — batna á næstu árum. Auðvitað erum við einvörðungu að líta til þess að þessi mörk taki breytingum til hækkunar eftir þróun launavísitölu.

Við gerum sömuleiðis ráð fyrir lítils háttar breytingum sem miða að því að hægt sé að greiða fyrr út inneignir sem skapast vegna þess að maki er í lægra skattþrepi. Við gerum líka ráð fyrir breytingum sem lúta að því að tryggja það að fólk hafi áfram áfrýjunarrétt þegar það sækir um ívilnun til skattsins og ef það er úrskurðað með þeim hætti að það sættir sig ekki við það geti það haldið áfram með málin, og sömuleiðis að fólk geti fengið leiðréttingu aftur í tímann ótakmarkað á sköttum sínum eins og verið hefur en það séu ekki settar tímaskorður við.

Aðrar breytingartillögur lúta, sú fyrsta, að því sem snýr að gengishagnaðinum en um hann hefur verið fjallað í 2. gr. og var nokkur umfjöllun um það í nefndinni og er með breytingartillögunni verið að skýra með hvaða hætti túlka skuli gengishagnað og greiða af honum skatta en þær viðmiðanir hafa ekki verið vel skýrar.

Þá bregst meiri hlutinn við gagnrýni sem fram hefur komið á þakið sem sett var á inngreiðslur í séreignarsjóði. Það var 2 millj. kr. þak og var fyrst og fremst hugsað til að koma í veg fyrir að menn gætu greitt mjög háar fjárhæðir inn í séreignarsjóðina og komist þannig hjá skattgreiðslum af þeim tekjum sínum núna. Telur meiri hlutinn eðlilegra að við miðum við það að hið lögbundna iðgjald, 12%, geti menn alltaf greitt inn en síðan sé 2 millj. kr. þak á viðbótarsparnaðinum og að með því sé þeim markmiðum náð í öllum aðalatriðum.

Við gerum síðan ráð fyrir og leggjum til að frestað verði gildistöku á ákvæðum í 7. gr. frumvarpsins sem lúta að arðgreiðslum á milli félaga. Þar eru inni mikilvæg ákvæði til að koma í veg fyrir það að verið sé að flytja tekjur milli félaga til þess að nota uppsafnað tap á öðrum vettvangi. Hins vegar er ástæða til þess að skoða betur þá þætti sem lúta að takmörkunum um 10% eignarhald í félögum og kanna það mál betur. Því er gert ráð fyrir að þau ákvæði taki gildi að ári en það er sömuleiðis tillaga okkar um 8. gr. frumvarpsins sem lýtur að skuldsettum yfirtökum. Í þeirri grein eins og hún var fram sett komu fram ákveðin sjónarmið um afturvirkni en það er auðvitað nokkuð sem við verðum að gæta sérlega vel að í þinginu gagnvart stjórnarskránni, sem og komu fram ábendingar um að betra væri að mæta þeim vandamálum sem risið hafa vegna skuldsettrar yfirtöku með heildstæðri löggjöf á þessu sviði. Þá er átt við löggjöf eins og þekkist víða um svokallaða „þunna eiginfjármögnun“ þar sem einfaldlega eru settar skorður við því hversu menn geta ráðist í skuldsettar yfirtökur. Hvetur meiri hlutinn til þess að ráðist verði í slíka heildstæða lagasetningu og í tengslum við hana komi til álita að gera breytingar á skattalögum sem því tengjast en rétt sé að nálgast slíkt verkefni sérstaklega og sem heildstæða löggjöf fremur en að taka það inn sem efnisgrein í þessu máli sem fyrst og fremst snýr að þrepaskiptum tekjuskatti sérstaklega.

Nokkrar aðrar breytingartillögur að finna í tillögum meiri hlutans sem eins og áður sagði er að finna á þskj. 259 sem og nefndarálitið á þskj. 258.