138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að verið væri að lækka skatta á þá sem fá lægstu launin og vernda þá með öllum hætti. Samkvæmt gildandi lögum á persónufrádráttur að hækka miðað við verðlag frá desember til desember og auk þess á hann að hækka um 2.000 kr. Þetta er hvort tveggja fellt burt og ef maður reiknar skatta á lægstu laun samkvæmt gildandi lögum og svo samkvæmt því frumvarpi sem hér er verið að ræða, þá hækka skattar á lægstu laun um 2.000 kr. Þannig að mér finnst að hv. þingmaður eigi að segja frá málunum eins og þau eru í raun og veru, en ekki einhvern veginn ímyndað, eins og hann vill sjá þetta. Það munar um 3.266 kr. á tekjubilinu frá 135.000 og upp í 170.000 eða 190.000 og það þykja nú ekki há laun, frú forseti. Það að skattarnir skuli hækka á þessa aðila þarf að koma fram.

Það má vel vera að það sé nauðsynlegt að skerða þau laun og hækka skattana en þá eiga menn líka að segja það.

Svo langar mig til að spyrja um sjómannaafsláttinn. Fyrirhugað er að afnema hann á fjórum árum, afskaplega mildilegt og kurteist gagnvart sjómannastéttinni, en á sama tíma breytir þessi sama ríkisstjórn fæðingarorlofinu í miklu hasti og mjög skyndilega gagnvart fólki sem getur í rauninni ekki varið sig því konurnar eru jú orðnar ófrískar og því verður ekki breytt og fjölskyldurnar hafa gert áætlanir miðað við þau lög sem eru í gildi.