138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það við kollega minn, hv. þingmann, að hún má ekki taka Stefán Ólafsson of alvarlega. (Gripið fram í: Ó?) Það verður aðeins að mínusa. (SII: Tölfræði …) Með aukinn jöfnuð, hvort ég sé hlynntur því að jöfnuður sé aukinn í samfélaginu eða hvort ég sé mótfallinn því held ég að svar mitt felist í því að ég er hlynntur því að við búum við gott velferðarkerfi, gott net sem tekur við þeim sem minna mega sín eða þar sem eitthvað kemur upp á. Þá á ég við eins og í örorku eða öðru slíku.

Hvort ég sé hlynntur því að allir séu á sömu launum? Nei, ég er ekki hlynntur því, ég held að það dragi hvata úr kerfinu og við höfum séð margar þjóðfélagslegar tilraunir í þá átt sem hafa endað með ósköpum.

Þetta með skattleysismörkin, að þau hafi verið rýrð, barnabætur, vaxtabætur, lífeyrissjóðir og ég veit ekki hvað og hvað, er einfaldlega ekki rétt. Á árunum 2001–2008 jókst kaupmáttur bóta úr velferðarkerfinu um næstum því 70%. Eitt af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna er að við jukum ríkisútgjöld gríðarlega mikið og ég er ekki stoltur af þeirri arfleifð Sjálfstæðisflokksins að hafa staðið að því að auka ríkisútgjöld jafnmikið og raun ber vitni vegna þess að nú er komið (Forseti hringir.) að skuldadögunum og það þarf að skera niður.