138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:24]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bendi hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni á að fræðimenn á borð við Stefán Ólafsson, Arnald Sölva Kristinsson og fleiri sem hafa tjáð sig um þessi tekjuskiptingarmál byggja einfaldlega fræði sín á tölfræði. Ætlar hv. þingmaður að halda því fram að þeir skáldi þá tölfræði? Eða hvernig liggur í því?

Annað mál, hv. þingmaður segist vilja gott velferðarkerfi og net sem getur haldið utan um allt fólkið okkar. Þá vil ég benda á að fyrr á árum, í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þurftu öryrkjar tvisvar að fara fyrir Hæstarétt með kjaramál sín. (Gripið fram í.)

Í þriðja lagi vil ég koma því á framfæri að ég aðhyllist það ekki að allir séu á sömu launum í þessu þjóðfélagi. Ég styð það einfaldlega að við skiptum byrðunum svolítið jafnt á milli okkar þannig að breiðustu bökin beri meiri byrðar.

Að lokum vil ég benda á í sambandi við ríkisútgjöld að vissulega erum við að minnka (Forseti hringir.) þau en einhvern veginn er það þannig að í hvert skipti sem upp kemur frumvarp sem á að stuðla að því að ríkisútgjöld séu minnkuð er stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) í röð til að mótmæla þeim breytingum. (TÞH: Nei.)